Laugavegshlaupið

Laugavegshlaupið 2010 - endað í Emstrum :/

Laugardagurinn 17. júlí var dagur Laugavegshlaupsins í ár. Þegar hlaupið var að byrja fyrir 10 árum eða árið 2000, var ég stödd inni í skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og var að búa mig af stað í mína fyrstu Laugavegsgöngu. Ég er ekki frá því að hafa hugsað þá „þetta geri ég einhvern tíman“ en fannst á þeim tíma sóun að verja bara einum degi í að fara þessa frábæru leið. En hér var ég stödd núna 10 árum síðar, til í slaginn og full tilhlökkunar að hlaupa Laugaveginn í fyrsta skipti. Stress ef kalla má var horfið fyrir nokkrum dögum og aðeins eitt aðalmarkmið; „Að leggja af stað“, öðru vísi kemst maður ekki að því hvað maður getur. Undirmarkmið voru svo að ná tímamörkum á leiðinni og ljúka mögulega á 8 tímum +/- eitthvað. Ég kom til Landmannalauga daginn áður með rútunni, svaf í tjaldi og vaknaði síðan um kl. 6 og hafði í nógu að snúast fram að hlaupi. Morgunmatur, klósett, sturta, pakka niður, fara yfir útbúnað, plástra tær, bera á mig vaselín, sólarvörn, klæða mig, setja farangur í rútuna, festa númer, skrá mig, fylla vatnspokann og þá var klukkan að verða 9. Veðrið var gott og spá dagsins var næstum of góð; þurrt, hlýtt og hægur NV-vindur.  

Klæðnaður: Ég var í síðum hlaupabuxum, stuttermabol og þunnum, léttum hlaupajakka. Hálfþykkum göngusokkum, léttum hlaupa/fjallaskóm með þykkum og mjög góðum sóla og léttar og þunnar öklahlífar. Svitabönd á úlnliðum og þunna hlaupavetlinga, buff um hálsinn, derhúfu og sólgleraugu. Nærföt voru þægileg og mynduðu ekki núningssár. Þessi klæðnaður reyndist mjög vel en á leiðinni tók ég ermarnar af jakkanum og við Bláfjallakvíst fór ég í hnébuxur og gat verið áfram í sömu skóm.

Landmannalaugar – Hrafntinnusker: Græni hópurinn var ræstur kl. 9.10 og göngukaflinn upp einstigið hófst. Síðan tók skemmtilegur skokkkafli við í hrauninu að Brennisteinsöldu og þar byrjuðu brekkurnar. Á þessum fyrsta áfanga leiðarinnar gekk ég eins og aðrir allar brekkur til að spara kraftana og það gekk fljótt fyrir sig og fyrr en varði voru drýgstu brekkurnar að baki. Við og við leit ég við til að njóta útsýnis yfir hálendið og var skyggni allt til Vatnajökuls. Á þessari leið var búið að setja niður appelsínugul flögg sem hjálpuðu til við að sjá rétta stefnu strax. Nú kom í ljós hvað gott var að hafa GPS tæki til að sjá hve langt var að Hrafntinnuskeri því annars hefði ég farið óþarflega hratt en nú gat ég notið hlaupsins vitandi að ég næði fyrsta áfanga á viðunandi tíma. Viðmiðin sem ég hafði fyrir áfangana fjóra voru 1 ½ tími hvor, fyrstu tveir hlutar hlaupsins og um eða rúmlega 2 tímar hvor, síðustu tveir hlutarnir. Þá mættu pásur vera 10 mín ef ég þyrfti. Ég kom að Hrafntinnuskeri eftir 1:40 klst. hlaup og leið mjög vel. Þar fékk ég mér vatn og powerade og vatnspokinn var fylltur (1 l) og ég herti skóreimarnar fyrir brekkurnar framundan. Tveim mínútum síðar var ég löggð af stað frá Hrafntinnuskeri í góðum gír og full orku.

Hrafntinnusker – Álftavatn: Nú tók við skemmtileg leið með sléttum köflum og misdjúpum giljum á víxl. Hér gekk ég bara í bröttustu brekkunum en skokkaði aðrar. Útsýnið var frábært og skammt frá Hrafntinnuskeri áttaði ég mig á að Eyjafjallajökull blasti við - SVARTUR og gufustrókinn lagði upp úr honum. Þetta var tilkomumikil sjón og þegar komið var nær Jökultungunum var stórkostlegt útsýni til allra átta, jöklar, sandur, vatn, fjöll – allir litir regnbogans voru hér, þvílíkt land! Í ár var ekki mikill snjór á leiðinni, einungis í giljunum og langt kominn að bráðna. Í jökultungunum fór ég frekar rólega og greinilega hægar en aðrir því þar missti ég sjónar á þeim tveimur sem ég hafði lengst af verið í sjónmáli við. Ég vildi ekki taka áhættu á að fá verki í hnén þó það hafi ekki borið á því hjá mér í fjallgöngum undanfarið né að renna. Skórnir sönnuðu gildi sitt hér og sýndu gott grip. Ég fann aðeins fyrir hægra hnénu, ekki verkur en seiðingur sem hvarf eftir smá öndun. Þegar niður var komið var lengra að Álftavatni en mig minnti og á einstaka stað hefðu mátt vera flögg til að merkja leiðina. Einnig var áin vatnsmeiri en í minningunni og flæddi meira að segja aðeins yfir stigann sem búið var að leggja yfir hana. Ég kláraði vatnið neðarlega í tungunum en líklega var pokinn ekki fylltur upp í topp en ég gat bjargað mér í lækjum á leiðinni. Fram að þessu var búið að vera nóg að gera á hlaupunum, taka inn orku á hálftíma fresti, drekka reglulega, bæta sólarvörn á varir og andlit og fylgjast með hraða og stilla sig í hæfilegan takt og síðast en ekki síst að njóta þess sem fyrir augu bar og upplifa hlaupið. Nú var hálfleikurinn að nálgast og ég fór yfir í huganum hvað ég þyrfti að gera á næstu drykkjarstöð og við Bláfjallakvísl. Orkubirgðirnar hjá mér samanstóðu af gelbréfum annars vegar og hlaupböngsum ásamt rúsínum og apríkósum hinsvegar. Ég hef tvisvar áður notað gelbréf í hlaupum og ég gat ekki hugsað mér að vera eingöngu með það allt hlaupið því þá fyrst myndi maður vilja hætta þó gelið sé í sjálfu sér ekki vont. Ég tók því gel og hlaup til skiptis en ég var búin að setja 50g af því í litla poka ásamt rúsínum og apríkósum – góð steinefni þar - og einnig var ég með smá salt. Ég var með næga orku en hefði mátt hafa stærri vatnspoka. Í Álftavatni var gott að fá orkudrykk, banana og góða hvatningu og aftur var fyllt á og haldið af stað en ég hafði ekki þörf fyrir að stoppa lengi eða hvíla mig.

Álftavatn – Emstrur:  Nú var stefnan tekin á Bláfjallakvísl og töskuna þar en þangað er drjúgur spotti. Það er falleg leið og ég var komin í góðan gír og naut leiðarinnar. Skammt frá Álftavatni er lítil á þar sem sett hafði verið fjöl en fljótlega eftir það er komið að Bratthálskvísl sem ég var búin að gleyma, ca. 7 m breið en grunn og þar var ekki annað að gera en að hlaupa yfir. Það sullaðist svolítið í skónum eftir hana en það háði mér ekki og áfram var hlaupið framhjá Hvanngili og Nyrðri-Emstruá og að Bláfjallakvísl. Gott að vera búin að sjá leiðina og því auðveldara að njóta í skamma stund á hlaupunum. Búið var að strengja kaðal yfir ána sem var mjög gott því ég fékk laxapoka til að vaða í og þeir tóku talsverðan straum. Í miðri á náði ég taktinum „neðri leitar – efri að“ og þetta hafðist ágætlega og við blöstu töskurnar í númeraröð. Þarna eyddi ég hugsanlega of löngum tíma en ég skipti um buxur og sokka í rólegheitum en gat haldið áfram í sömu skóm eins og ég stefndi að þótt aukaskór væru í töskunni. Einnig skipti ég um tvo plástra á tánum en ég var með second skin sem reyndist mjög vel þó það losnaði aðeins út af bleytunni. Í töskunni var líka seinni helmingur hlaupbangsanna sem ég bætti nú í mittistöskuna sem ég var með og skildi í staðin eftir annað buffið og eitthvað aukadót sem ég þurfti ekki. Nú var ég tilbúin að halda áfram en þegar ég leit yfir sandinn framundann virkaði þetta gríðarlangt auk þess að vera orðin smástirð eftir bogrið og það kom smá „úps“ upp í hugann. Nú var kominn tími á tónlistina og fyrsta lagið hljómaði  „.. you never know if you don‘t go, .. hey now you‘re an all star, get your game on go ..„ það hefði ekki getað byrjað betur og ég var komin af stað. Hér og það sáust litlir sand/ösku hvirflar í golunni en komu ekki að sök því vindurinn var lítill og ég varð ekki vör við ösku í loftinu. Nú var um að gera að drekka reglulega því sólin skein og það var þægilega heitt. Ég var þannig séð ein á sandinum lengst af og naut landslagsins, veðursins og tónlistarinnar og sandurinn var að baki áður en ég vissi af. Ég gleymdi mér næstum því og hefði haldið áfram á bílveginum ef ég hefði ekki séð glitta í bakpokaferðalanga framundan og mundi þá eftir að líta eftir stikunum fyrir gönguleiðina. Þegar nær dró Útigönguhöfðum var farið að minnka í vatnspokanum uns vatnið kláraðist og því var ég fegin að sjá drykkjarstöðina þar sem 6 km voru eftir að Emstrum. Ég fékk mér vel að drekka en veit ekki af hverju ég fyllti ekki pokann hjá mér. Líklega fannst mér það stutt eftir og tímdi ekki að eyða tíma í það því 6 klukkustunda tímamörkin í Emstrum nálguðust og ég söng með Queen „don‘t stop me now“. Á svipuðum slóðum áttaði ég mig á að ég var ekki með restina af gelbréfunum sem ég hafði sett samviskusamlega í mittispokann daginn áður en þau hlutu að hafa orðið eftir við Bláfjallakvísl! Nestið var þó nægjanlegt ennþá, semsagt hlaup og rúsínur. Það kom í ljós daginn eftir að ég hafði sett gelin ofan í töskuna sem var við Bláfjallakvísl og í sama poka var rykgríman sem hlaupurum var úthlutað þannig að það var gott að ekki var meiri vindur! Þegar Hattfell nálgaðist var mér ljóst að nú þyrfti ég að keppa við klukkuna til að fá að halda áfram frá Emstrum, eitthvað sem ég hafði í raun talið að ég ætti auðvelt með að ná. Nú þurfti ég aðeins að gefa í og síðustu 5 km að Emstrum hef ég líklega farið of hratt því á síðasta 1,5 km þurfti ég öðruhvoru að stoppa og ganga bæði út af smá verkjum í hnjám og mæði. Meira vatn hefði hjálpað til þó ég hafi ekki liðið af vatnsskorti og þessi síðasti km er ótrúlega drjúgur með endalausum sandöldum. Erfitt var að trúa gps-tækinu því mér fannst ég alltaf hljóta að vera að koma. Hnén sögðu aðeins meira til sín þó ekki væri það mikið en loksins þegar ég kom í síðustu brekkuna og skálarnir blöstu við sögðu hnén óvænt að nóg væri komið. Þarna fann ég að ekki væri gáfulegt að fara lengra þó ég næði tímamörkunum því síðasti áfanginn er mjög giljóttur og með nokkrum drjúgum brekkum. Ég sá 1 eða 2 hlaupurum fara áfram frá skálanum þannig að ég var á mörkunum en ég gat þó ekki hlaupið niður brekkuna og gekk rólega og hálfskokkaði. Að Emstrum kom ég eftir 6 klst og 5 mín hlaup og mátti því ekki fara áfram. Það kom mér á óvart að ég var ekki mjög svekkt enda vildi ég frekar vera göngufær í bakpokaferðum heldur en í lamasessi í marga dag. Mín ástæða fyrir hlaupunum er einmitt að geta farið í bakpokaferðir sem lengst og þá er um að gera að eyðileggja það ekki. Fyrir mér var þetta einfalt, ég var í góðu formi en ekki nógu góðu til að klára Laugaveginn og því þyrfti bara meiri undirbúning ef ég vildi endurtaka þetta. Einnig var ég sátt því þessir tímar voru skemmtilegir, frábært veður og mér leið vel allan tíman fyrir utan síðustu brekkuna. Í Emstrum var vel tekið á móti okkur sem stoppuðu þar og fólkið yndislegt. Það var gott að dæla í sig súkkulaði og annarri orku og þarna fór ég í fyrsta sinn á klósettið í hlaupinu þannig að þrátt fyrir mikla vökvainntöku er útgufunin þetta mikil. Ég fór að ráðum mannsins míns sem er reyndur hlaupari, að ganga eftir langt hlaup þannig að ég rölti um pallinn fram og aftur og settist ekki fyrr en rétt áður en farið var í rútuna.

Eftir hlaupið:   Nú tók við hossingur í 1-2 tíma að Hvolsvelli og eftir þann hristing var ég búin að fá nóg af hálendisbrölti í bili og var ekki viss hvort ég hefði áhuga á að prófa þetta aftur. Á Hvolsvelli stendur maður síðan í skítugum hlaupafötum reyndar með teppi, peningalaus, símalaus og lyklalaus því ekki undirbýr maður sig fyrir að hætta á leiðinni heldur miðar allt við að enda í Þórsmörk. Ég var heppin að því leyti að maðurinn minn var þar og gat fengið bakpokann minn og var kominn á undan rútunni þannig að biðin var ekki löng.

Meðan beðið var í Emstrum kom upp sú umræða hvort maður myndi nota bolinn sem við fengum. Jú mér fannst það nú í lagi því þrátt fyrir allt lukum við ¾ hlutum hlaupsins og það er líka ákveðinn sigur að hafa lagt af stað. Allt of margir þora ekki að byrja á markmiði af ótta við að mistakast og ef við látum þennan ótta stjórna okkur þá rætast ekki draumarnir. Við ættum frekar að einblína á að byrja á því sem okkur langar til að gera því öðruvísi komumst við ekki að því hvað við getum né náum markmiðunum.

Mér fannst nauðsynlegt að geta hlustað á skilaboð líkamans og notaði því ekki verkjalyf enda hef ég farið í gegnum fæðingar án mikilla deyfinga og fannst þetta ekki jafnast á við það. Annaðhvort þolir maður verkina eða ástæða er til að hætta. Eftir þetta 6 tíma hlaup mitt fékk ég engar blöðrur, ekki harðsperrur og gat gengið eðlilega. Ég þakka það plástruðum tám, röltinu við skálann í Emstrum og góðu þjálfunarprógrami. Það var góð og skemmtileg reynsla að taka þátt og ég er nokkuð viss um að ég reyni við hlaupið aftur.

Með kveðju, Hrönn