Áhugasvið og styrkleikar

Mikilvægt er að íhuga og þekkja áhugasvið sín. Starfirður við það sem tengist áhugasviðinu á muntu njóta vinnunnar betur og verða farsælli í vinnu. Við blómstrum ef við erum að gera það sem okkur finnst gaman og áhugavert og því er áhugasviðið eitt af því sem við hugum að við starfsval.

Það er einnig nauðsynlegt að þekkja styrkleika sína og velja störf þar sem við getum notað styrkleikana. Hugsaðu minna um veikleikana og ekki eyða tíma í að efla þá. Notaðu frekar tímann til að finna hvaða styrkleikar hjálpa þér til að yfirskyggja veikleikana.

Áhugasviðin

Í byrjun voru áhugavíddirnar fjórar: Fólk - Hlutir - Tölugögn - Hugmyndir

Svo þróuðut þessar víddir og í dag eru sex grunn-áhugasvið sem notuð eru í áhugasviðskönnunum. Þau innihalda svo fleiri undirsvið og það er svo samspil áhugasviðana sem gefa vísbendingar um hvaða starfssvið gætu hentað hverjum og einum.

Áhugasviðin eru sex og byggja á kenningum John Holland:

  • Handverkssvið (H) / Realistic (R): Þetta svið lýsir þeim sem líkar vel að að vinna með höndunum og beita alls kyns verkfærum, tækjum og tólum. Flest líkamleg störf höfða til þeirra auk starfa sem unnin eru utandyra. Þeim líkar að vera í ævinýralegu umhverfi og útistörf og útivist hvers konar höfðar gjarnan til þeirra.

  • Vísindasvið (V) / Investigative (I): Þeir sem falla á þetta áhugasvið hafa gaman af því að leysa vandamál með vísindalegum aðferðum, útreikningum og rannsóknum og beita rökhugsun. Þeir vilja vinna sjálfstætt og í störfum sem krefjast mikillar einbeitingar. Þeir hafa fjölþætt áhugamál og eru gjarnan opnir fyrir nýjum hugmyndum og reynslu.

  • Listasvið (L) / Artistic (A): Þeir sem falla á þetta svið hafa mestan áhuga á að vinna að sköpun og tjáningu. Þeim finnst oft mikilvægara að tjá tilfinningar sínar heldur en að nota rökhugsun og kjósa gjarnan að vinna sjálfstætt og vera frumlegir. Þessir einstaklingar fara gjarnan óhefðbundnar leiðir í lífinu og eru opnir fyrir nýjum hugmyndum og reynslu.

  • Félagssvið (F) / Social (S): Fólk á þessu sviði velur sér störf sem fela í sér mannleg samskipti. Þeir hafa áhuga á að hjálpa öðrum, leiðbeina eða kenna. Samvinna, skipting ábyrgðar og sveigjanleiki í samskiptum skiptir þá helst máli í starfi. Þeir leggja áherslu á að leysa málin með því að ræða þau út frá tilfinningum og samskiptum við aðra.

  • Athafnasvið (A) / Enterpricing (E): Þeir sem falla á þetta svið hafa áhuga á að ná fram ákveðnum markmiðum, persónulegum eða efnahagslegum. Þeir vilja vinna með öðrum en hafa mestan áhuga á að stjórna og hafa áhrif. Þeir eru gjarnan í viðskiptum, stjórnmálum og í stjórnunarstörfum og vilja vera virkir í athafnalífi. Þeir eru oft tilbúnir til að taka áhættu í starfi og eru miklir keppnismenn.

  • Skipulagssvið (S) / Conventional (C): Þetta svið lýsir þeim sem vilja hafa gott skipulag á sinni vinnu. Þeir vilja vinna við skýrt afmörkuð verkefni þar sem hægt er að leita skynsamlegra og hagnýtra lausna á vandamálum. Þeir eru áreiðanlegir, vilja hafa reglu á hlutunum og vinna gjarnan með gögn og skýrslur. Þeir vilja frekar vinna undir stjórn annarra eða þar sem farið er eftir skýrum áætlunum en að stjórna öðrum sjálfir.