16. - 17. ágúst 2025

Kíkt inn á Kjöl
jógaganga - tjaldferð (kvennaferð)

  • Njóttu þess að dvelja í náttúrunni

  • Finndu að þú býrð yfir nægum styrk

  • upplifðu kyrrðina úti og dveldu í innri kyrrð

  • komdu út fyrir boxið eina helgi með hópi kvenna

Kvennaferð þar sem gengið er með tjald og annan búnað til tveggja daga inn í friðsæld fjalllendisins við jaðar hálendisins. Ferðin er farin til að njóta náttúrunnar, leiða hugann inná við með jógaiðkun og til að upplifa og reyna á eigin kraft og styrk. Gengin vegalengd er því ekki fastsett heldur fjöldi klukkustunda á ferð hvorn daginn.

Farið er á eigin bílum að upphafsstað göngunnar og hefst gangan á Kjalvegi skammt frá Bláfelli kl. 11 á laugardagsmorgni. Gengin er hringleið á tveimur dögum og tjaldað á leiðinni. Njótum náttúrunnar, kyrrðarinnar, áreynslunnar, slökunarinnar og samverunnar. Komið er aftur að bílunum um kl. 17 á sunnudeginum. Þátttakendur fá góðan búnaðarlista, leiðbeiningar um pökkun og hugmyndir að hentugu nesti.

Á göngunni eru teknar pásum á hefðbundnum matar og kaffitímum. Einnig eru teknar pásur fyrir jóga sem er ýmist öndunaræfingar, hugleiðslur, jógastöður eða annað. Það fer eftir veðri hvort jóga er gert í færri og lengri lotum eða í fleiri styttri pásum. Ferðin er hvorki kappganga þar sem er gengið til að ná tímamörkum og heldur ekki sérstök hægganga. Bæði verður gengið sama í hóp og spjallað og einnig gefið svigrúm í ferðinni til að ganga ein í þögninni og með lengra bil á milli.

Erfiðleikastig

Gönguhraðinn fer að hluta til eftir veðri, hópi og göngusvæði. Dvalið er lengur eða skemur í pásum eftir hvað hentar út frá veðri. Einnig passað upp á að fara hægar upp brekkur og halda hópnum vel saman. Má því gera ráð fyrir að gönguhraðinn verði stundum 2,0 km/klst og upp í 4,5 km/klst. Nauðsynlegt er þó að vera í ágætu gönguformi og geta borið nauðsynlegan búnað. Eitt viðmið um getustig fyrir þessa ferð er að vera fær um að ganga 12 km á einum degi með bakpoka (með pásum) og að vera fær um að ganga 10 km á malbiki á um það bil 2 tímum án byrgða.

Dagur 1:

Gangan hefst á sunnanverðum Kjalvegi en þangað er fólksbílafært (nánari útlistun til þátttakenda) kl. 11 á laugardagsmorgni. Gengið er eftir gönguslóðum og gönguleiðum út í náttúruna fjarri alfaraleið. Gengið úr gróðurleysi við akveginn inn í gróið svæði við Kjalveg hinn forna. Fundinn er hentugur tjaldstaður um kl. 17 - 18 við vatnsuppsprettur. Á leiðinni er jóga og einnig um kvöldið hjá tjöldunum.

Göngutími dagsins: 6 - 7 klst. með pásum (búast má við göngu á bilinu 9 - 12 km.). Lítil hæðabreyting.

Dagur 2:

Morguninn hefst á morgunjóga og hugleiðslu fyrir morgunmat. Að honum loknum eru tjöldin tekin saman og gengið af stað upp úr kl. 9. Gengið er áleiðis til baka að bílunum en ekki alveg sama leið. Leiðin liggur framhjá fjöllum og um vel gróið svæði. Gert er ráð fyrir að koma að bílunum um kl. 17 og í síðasta lagi kl. 18.

Ferðatími dagsins: 7-8 klst. með pásum (búast má við göngu á bilinu 9 - 12 km.). Lítil hæðabreyting.

Farangur:

Bakpoki, Tjald, svefnpoki, dýna, útivistarklæðnaður, eldunarbúnaður, áhöld og matur (morgunmatur 1x, hádegismatur 2x, kaffitími 2x, kvöldmatur 1x, kvöldkaffi 1x, orkunasl á milli ef þarf). Þátttakendur fá nánari lista. Gengið er með allan farangur á bakinu en með lagni ætti að vera hægt að sleppa með 6 - 9 kg. Hægt væri til dæmis að sameinast um eldunaráhöld eða tjald.

Undirbúningsfundur verður í lok júlí eða byrjun ágúst.

Hér er hægt að hlusta á podcast um gönguleiðina um Kjalveg og þar kemur fram lýsing á þessu svæði.

skráning:

Verð

25.000 kr.
Innifalið: Leiðsögn, jóga, undirbúningsfundur með leiðbeiningum um búnað og pökkun, gátlistar, gjöld og skattar. Þátttakendur koma á eigin bílum en hvatt til að sameinast verði í bíla.

Lágmark 6 og hámark um 12 verða í ferðinni.

Staðfestingargjald 5.000 er greitt í byrjun júlí og fullgreiða svo ferðina 2 vikum fyrir ferð.

Nánari upplýsingar í síma 899 8588 eða netfangið hronn@thinleid.is

Uppfært í október 2024