Fyrirtækið

Hrönn Baldursdóttir stofnaði Þín leið árið 2009 til að stuðla að því að fleiri njóti þess að finna sín draumaviðfangsefni og rifji reglulega upp lífsstefnuna sína og markmið.

Fyrirtækið Þín leið sérhæfir sig í starfsferlinum. Í því felst þjónusta eins og einstaklingsviðtöl, hópavinna og námskeið. Einnig er nýttur vettvangur eins og sjálfseflingarferðir með jóga og gönguferðir og dvöl í náttúrunni.

Við höfum öll val um að dvelja eingöngu við drauma eða gera okkar besta til að láta þá rætast. Til að ná markmiðum þarf oft að fara ótroðnar slóðir og gera hluti öðru vísi en áður. Það tekst með góðum undirbúningi, íhugun, hugrekki og hæfilegu áhyggjuleysi.

Það þarf orku og hugarvinnu til að komast í framkvæmdagír og vinna að markmiðum og þróun á sínum lífs- og starfsferli. Því er stuðst við útiveru og gönguferðir í náttúru Íslands, fræði náms- og starfsráðgjafar og sjálfsrækt með jóga.

Um mig

Hrönn Baldursdóttir heiti ég og er náms- og starfsráðgjafi. Hef leyfisbréf sem náms- og starfsráðgjafi (fagið er á mastersstigi) og BA próf í sálfræði í grunninn. Jógakennari (Hatha-jóga, Kundalini jóga og Yoga Nidra). Gönguleiðsögukona og hefur verið með jóga- og sjálfseflingargöngur frá árinu 2009.

Hrönn er í Félagi náms- og starfsráðgjafa og vinn samkvæmt siðareglum þess. Er einnig í jógakennarafélagi Íslands og í Leiðsögn, félagi leiðsögumanna á Íslandi.

Árið 2022 fékk ég viðurkenningu frá Félagi náms- og starfsráðgjafa (FNS) fyrir fagmennsku og nýsköpun í starfi (sjá myndir).

Logoið

Vegurinn er lífsleið hvers og eins. Við sjáum ekki fyrir endann á honum en megum láta okkur dreyma um hvert við viljum fara. Síðan þarf að vinna að því að það rætist. Vegurinn er bæði ráðgjafar- og gönguhlutinn í "Þín leið". 

Fjallið er tákn um útiveru, náttúru og áskoranir sem við viljum sigrast á. Útivera, hreyfing og ferðir á nýjar slóðir gefa okkur aukinn kraft, nýja sýn og þor sem nýtist til framkvæmda og nýrra lausna. Fjallið er leiðsagnarhlutinn í "Þín leið".

Sólin er vellíðan, gleðin og hamingjan. Hið endanlega takmark sem við stefnum að eða viljum lifa í. Hún táknar kraftinn og kærleikann innra með okkur og í heiminum á þann hátt sem hvert og eitt sér hann. Sólin er jógahlutinn í "Þín leið".

Flestar myndir á síðunni tók Guðný Elísabet Óladóttir, ljósmyndari.