Skólakerfið á Íslandi

Hér á landi er skólaskylda í 10 ár í grunnskóla, frá 1. upp í 10. bekk. Reyndar er hægt að ljúka því námi fyrr ef skólastjóri staðfestir að því sé lokið. Fræðsluskylda er í landinu fyrir 16 - 18 ára en það var sett í lög 2008. Það merkir að öll ungmenni sem eru orðin 16 ára eða hafa lokið grunnskóla eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla og stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs.

Skólastigin í landinu eru fjögur. Fyrsta skólastigið er leikskóli, annað skólastigið og það eina sem er skylda er grunnskólinn, þriðja skólastigið er framhaldsskólastigið og fjórða skólastigið er háskólastig.

Sveitafélög sjá um leik- og grunnskóla en ríkið um framhalds- og háskóla. Einnig geta einstaklingar eða samtök fengið leyfi til að reka skóla á öllum skólastigum (einkareknir skólar). Margir sérskólar eru starfandi í landinu og bjóða nám á einu eða fleiri skólastigum. Þetta eru t.d. listaskólar með tónlist, myndlist, dans o.fl.

Grunnskólar starfa lágmark í 9 mánuði á ári og nemendur fá 180 skóladaga árlega. Sameiginleg námskrá gildir á öllu landinu (“Aðalnámskrá grunnskóla”) sem hver skóli útfærir á sinn hátt. Áhersla er á nám við hæfi hvers og eins og námsárangur er metinn eftir hæfniviðmiðum. Í 8.-10. bekk hafa nemendur rétt á að velja námsgreinar (valgreinar) og oft miðað við 10% af heildar fjölda kennslustunda á viku. Hver skóli má bjóða nemendum að velja allt að 20% af heildar kennslustundafjölda.

Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og/eða undir meira nám. Allir nemendur hafa rétt á að komast inn í einhvern framhaldsskóla beint eftir grunnskóla. Nemendur sækja um á vorin og sækja þá um einn aðalskóla og mega sækja um annan til vara. Á sama tíma sækir nemandi um ákveðna námsbraut en yfir 100 námsbrautir eru í boði í framhaldsskólum landsins. Mismunandi er hve margar brautir eru í hverjum skóla. Sumar brautir eru kenndar í nokkrum skólum og aðrar brautir eru aðeins í einum skóla. Skólar hafa því margir ákveðna sérhæfingu auk þess að flestir skólar hafa ákveðnar kjarna-bóknámsbrautir í boði.

Á hverri braut í framhaldsskólum eru áfangar sem eru metnir á þrep. Þrepin eru fjögur og lengstu brautirnar innihalda áfanga á 1. - 4. þrepi. Algengar brautir sem eru 3 ár innihalda áfanga á 1. - 3. þrepi og sumar styttri brautir innihalda áfanga á 1. og 2. þrepi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið ákveður hvað mörg nýnemapláss eru í boði hjá hverjum framhaldsskóla.

Háskólar á landinu eru nokkrir og með þó nokkra sérhæfingu hver. Mikilvægt er að kynna sér snemma inntökuskilyrði í hverja námsgrein og áður en námi í framhaldsskóla er lokið til að geta valið þær undirbúningsgreinar sem þarf. Á hverju ári skráir ákveðinn fjöldi sig aftur á framhaldsskólastig til að bæta undirbúninginn þrátt fyrir að vera búin með stúdentspróf. Mikil fjölbreytni er á námsframboði í háskólum, um 3-400 námsleiðir í grunnnámi háskóla og sama úrval í framhaldsnámi.

Það eru mikil verðmæti fólgin í því að hafa skólakerfi með það mikla úrval náms eins og er í skólakerfinu hér á landi. Það er alls ekki sjálfgefið fyrir smáþjóð. Hins vegar er líka verðmætt að fara í nám erlendis og fá þá reynslu að standa á eigin fótum og kynnast tungumáli og menningu á beinann hátt.

Gagnlegar slóðir um nám:

Næsta skref - naestaskref.is Vefur sem er í stöðugri þróun með upplýsingum um nám á Íslandi og starfslýsingar.
Fara bara - farabara.is Vefur á íslensku um nám erlendis, styrki til náms og undirbúning.
Á island.is er hægt að kynna sér skólamálin nánar.

thin leid