Þín leið

Mörg okkar verja meiri tíma í að skipuleggja sumarfríið en starfsferilinn. Samt er hefðbundið sumarfrí hjá launþegum 3-5 vikur en vinnutíminn á ári eru 46-48 vikur! Það ætti því að vera sjálfsagt að íhuga og endurskoða starfsferilinn regluleg og hugleiða t.d. eftirfarandi:

  • finnst mér gaman í vinnunni

  • nýt ég mín í vinnunni

  • eru launin ásættanleg

  • er ég að gera það sem mér finnst skemmtilegt, áhugavert eða gefandi

  • er annað að koma í veg fyrir að ég njóti vinnunnar

    Ef svörin eru að mestu neikvæð, ætla ég þá að gera eitthvað í því? Hvað ætla ég þá að gera, hverju ætla ég þá að breyta og hvenær? Einnig má skoða aðra kosti eins og að vinna sjálfstætt, stofna eigið fyrirtæki, vinna sjálfboðavinnu og fleira.


Náms- og starfsval

Þegar ákeða þarf næsta skref á starfsferlinum þarftu að kanna ýmis atriði. Á Íslandi og í heiminum eru til um og yfir 2-3000 starfsheiti og því er ekki hlaupið að því að velja. Auk þess eru þau breytingum háð, sum hætta að vera til og ný mótast. Jafnstór ákvörðun og val á starfi og námi er, þarf að vera vel ígrunduð. Til að svo megi verða þarftu eftirfarandi upplýsingar:
Upplýsingar: um þig – um störf og atvinnulíf – um nám og skóla. Mundu líka að það má skipta um skoðun. Þó við spáum í starfsævina og atvinnulífið þá erum við ekki þar með að taka endanlegar ákvarðanir um allt sem viðkemur starfsferlinum. Með hverri starfsreynslu, námslotu og lífsreynslu þroskumst við, eflum sjálfsþekkingu og sjáum fleiri möguleika.

Það er því eðlilegt að starfsferillinn mótist og breytist gegnum lífið. Það er líka einstaklingsbundið hversu langt fram í tímann við viljum horfa. Það er í lagi að skipuleggja eða leggja drög að áætlun fram í tímann. Höfum samt í huga að utanaðkomandi áhrif geta breytt þeim áætlunum og leyfum okkur sjálfum líka að skipta um skoðun. Látum þetta samt ekki fæla okkur frá að dreyma og áætla.

Enginn getur svarað þessu fyrir þig og við verðum sjálf að finna hvert leið okkar liggur. Enginn veit hvað þú getur og hvað þú getur ekki. Þú kemst að því með því að prófa þig áfram, þora að gera mistök og halda samt áfram.

Mundu bara .. að þegar þú veðrast upp við tilhugsunina um ákveðin störf, vinnu eða verkefni, það réttist ósjálfrátt úr líkamanum
og þú finnur gleði og áhugann flæða um þig .. þá ertu á réttri leið, þinni leið.

Stundum þarf að taka þrjár vinstribeygjur
í stað einnar hægribeygju
til að átta sig á sinni réttu leið
- Tricia Huffman -

Skólakerfið

Hér eru nokkur myndbönd þar sem é gtala um skólakerfið. Sum komin inn en restin bætist við á næstunni.

Hér er hægt að bóka tíma í viðtal um náms- og starfsval:

Sjá einnig ráðgjafapakka hér

Náms- og starfsráðgjafar ..

.. fást við að aðstoða fólk í að yfirfara og móta sína eigin stefnu og óskaviðfangsefni í lífinu og aðstoða viðmælendur við þeirra eigin markmiðavinnu til að koma þeirri stefnu í framkvæmd.

Foreldrar

Foreldrar og forráðamenn eru mikilvægir stuðningsaðilar við náms- og starfsval barna. Þeir styðja við það þroskaferli barna að kynnast sjálfum sér og móta starfshugsun þeirra. Viðbrögð og athugasemdir þeirra hafa mikil áhrif þegar barn og unglingur viðrar hugmyndir sínar og langanir varðandi nám og störf.

Miklar tröllasögur eru til um foreldrana sem vilja stýra námsvali barnanna. Stjórna hvaða skóli og braut verða fyrir valinu eða verður ekki fyrir valinu. Vissulega hef ég orðið vör við þannig foreldra í mínum störfum í skólakerfinu sem náms- og starfsráðgjafi. Þeir eru bara í svo miklum minnihluta. Mjög sjaldgæf tegund :) Að mestu leiti upplifi ég foreldra vera opna fyrir því hvað börn þeirra vilja og hvetjandi við börnin. Margir foreldrar eru einmitt að passa sig að vera ekki stýrandi og eru jafnvel óörugg um sitt hlutverk og aðkomu að náms- og starfsvali barnanna.

Aðalhlutverk foreldra er að hlusta. Leyfa hugmyndir og drauma barnanna og unga fólksins. Það þarf ekki að rökræða um gagnsemi, raunhæfni eða skynsemi hugmyndanna. Hlustun er gulls í gildi því það að tjá hugmyndir er nauðsynlegur þáttur til að móta starfshugsun.

Annað mikilvægt hlutverk foreldra er að benda börnum og unga fólkinu á styrkleika þeirra. Foreldrar og forráðamenn þekkja börnin sín vel og þar með styrkleika þeirra. Það er öllum gagnlegt að heyra hvaða þættir eru styrkleikar í eigin fari.

Að lokum vil ég nefna við foreldra að segja ungmennunum frá sinni eigin vinnu, fyrri störfum og hvernig þeirra starfsferill hefur mótast. Talið einnig um atvinnulífið og störf þegar tækifærið gefst vegna samfélags- og fréttaumræðu. Í dag er erfitt að sjá hvað felst í mörgum störfum því þau eru unnin rafrænt. Gott er að tala um verkefnin sem eru unnin í störfum því starfsheitið eitt og sér getur verið ógagnsætt. Störf og starfsheiti eru breytileg en verkefnin síður.

Spurningin “hvað viltu verða” er mjög stór, spyrjum oftar: “Hvað viltu gera og “Hvað langar þig”