Ferðir í náttúrunni

… er leið að innri kyrrð og ró

Það er heilandi og nærandi að dvelja í náttúrunni. Það er slakandi og með því hjálpum við huganum að kyrrast og athyglinni að dvelja meira hjá okkur. Þess vegna nota ég náttúruna fyrir ýmsa innri vinnu og set saman jógaferðir, gönguferðir með jóga og retreat-ferðir á Íslandi.

Mismunandi ferðir

Ferðirnar eru frá dagsferðum og allt upp í 6 daga ferðir. Lengri ferðirnar eru retreat ferðir en þær eru að minnsta kosti 5 daga langar en það er lágmarkið til að ná að vinda almennilega ofan af okkur og fara í sjálfsvinnu.

Sumar ferðirnar eru inn á hálendið, sumar eru nær byggð og aðrar einhvers staðar þar á milli. Í ferðunum förum við mismunandi mikið út fyrir þægindarammann en það er mjög einstaklingsbundið hvar þau mörk eru. Alltaf er þó stefnan að vera innan við öryggismörkin. Það felst lærdómur í því að ögra sér aðeins, prófa eitthvað nýtt og takast á við líkamlega áreynslu, náttúruöflin og minni þægindi en við eigum að venjast.

Þannig viðhöldum við hugrekkinu og aukum þor.

Hver vegur að heiman er vegurinn heim

Til að ferðast inn á við og kanna hugann okkar er hjálplegt að fá kyrrð og næði. Þögnin getur þá verið okkar besti vinur til að við heyrum hugsanir okkar. Einnig náttúran en öll náttúruhljóð og snerting við náttúruna veitir ró, slökun og kyrrð. Hver vegur að heiman gefur okkur fjarlægð frá því sem við erum vön. Það verður oftast til þess að við spáum í lífið okkar og okkur sjálf. Það leiðir okkur inn á við að skoða huga okkar.

ferðir 2024

Í sumar verð ég með tvær tveggja daga tjaldferðir, eina fjögurra daga ferð inn að Fjallabaki og eina kyrrðarferð á Snæfellsnes. Ég stefni líka á að hafa helgarferð í september í Öræfasveit og Skaftafell.

Þær má sjá undir flipanum hér efst á síðunni Ferðir.

Fyrri ferðir

Fyrri ferðir sem ég hef verið með hjá Þín leið hafa legið víða um landið. Það eru lengri ferðir um hálendið og þá oftast að Fjallabaki, um Kjöl og á Strandir. Einnig víðar um landið í dagsferðum og í styttri ferðum um suð-vesturhornið.

Hér má sjá nokkrar myndir úr fyrri ferðum.

Uppfært í sept. 2023