.. að gera í sumar ..
Heil og sæl
Það er alltaf um þetta leyti sem ég er loksins komin í sumarfrís-tempóið .. loksins. Þó ég sé töluvert að vinna yfir sumarið og dreifi fríi reglulega yfir árið þá er ég í fríi frá ýmsum verkefnum og frá ákveðinni rútínu. En sumarfrís-tempóið er þessi tilfinning að vera meira í flæði, tímafrelsi, þurfa ekki að líta á klukku stóran hluta dags og hafa svigrúm ef mér dettur í hug að nota dagana í hitt og þetta sem er venjulega ekki á dagskrá hjá mér.
Þetta finnst mér svo nauðsynlegt, ... og þetta er nauðsynlegt. Líklega þarf oftar en ekki nokkrar vikur til að komast í þennan gír þó að það sé nú misjafnt. Það hjálpar vissulega að samfélagið er meira og minna í fríi í júlí og stór hluti samfélagsins breytir um tempó.
Síðan er líka áhrifaríkt að skipta um stað og fara að heiman. Það þarf ekki einu sinni marga daga í burtu til koma heim og finnast við hafa verið heillengi frá. Við sjáum hlutina í nýju ljósi og finnum hvað í okkar lífi við metum og hvað má missa sín.
Ég vil eiga tíma reglulega til að endurskoða mig og komast þannig upp úr hjólförunum sem ég finn mig stundum í. Ég endurskoða líka venjurnar og rútínuna. Rútínan festir vana í sessi og þannig mótum við þann lífstíl sem við viljum hafa. Mér finnst ég samt stundum vera lengi að festa nýjar venjur í sessi. Mér finnst það oft taka mig óþarflega mikinn tíma að breyta lífsstílnum á þann hátt sem ég vil hafa hann. En ég tel mig vita af hverju þetta er hjá mér …. ég held það sé þegar ég ver ekki nægum tíma í að rifja upp af hverju ég vil það sem ég vil. Annað líka reyndar, það er að ég tek mér stundum of mikið fyrir hendur og búin að segja já við einhverju áður en ég kíki í dagbókina og man að ég ætlaði að gera allt annað.
Að sjálfsögðu má vera spondant og taka þátt í því skemmtilega sem býðst allt í einu. En of oft þýðir að þá situr eitthvað mikilvægt á hakanum og breytingar sem ég vil gera, taka meiri tíma.
Þið kannist sjálfsagt við eitthvað af þessu. Það eru þessar endalausu ákvarðanir við að ráðstafa tíma og orku í alls konar. Á öllum tímabilum lífsins breytast líka venjur og þarfir. Tíminn ýmist rýmkast eða takmarkast og sama er með heilsu og fjármagn sem við höfum. Þetta kallar á reglulega endurskoðun og ákvarðanatökur.
Allavega þá er málið að stoppa sig aðeins af og fara yfir þetta fyrir alvöru. Hvað væri ég til í að gera næst, gera öðruvísi eða vera frekar að gera við minn tíma? Núna er sumar þegar ég skrifa þetta og þá finn ég að það væri t.d. sniðugt að punkta niður hjá mér hvað ég vil að fylgi næsta sumri. Hvað vil ég hafa á plani á næsta sumri sem ég er ekki að gera núna svo ég geti nú gert ráð fyrir því tímanlega en ekki hugsað á miðju sumri „æ, mig hefði nú langað til að … .
Ef ég vil hafa eitthvað öðruvísi, sumarrútínuna til dæmis, þá verð ég að vita hvað það er í fyrsta lagi og svo sjá til þess að ég láti verða af því. Fátt gerist af sjálfu sér af því sem okkur dreymir um. Það þarf að hugsa það, sjá það fyrir þér, segja það upphátt og gera svo það sem þarf að gera til að það rætist.
Gefðu þér tíma og næði til að finna út úr draumunum, vinna með ákvarðanirnar og finna leiðir framhjá hindrunum þegar einhverjar eru.
Njótið sumarsins
Bestu kveðjur, Hrönn