Mikilvægi náttúrunnar

Nýlega var myndin Náttúruáhrif (The nature effect / Terre sauvage) sýnd á Rúv og er hún um áhrif náttúrunnar. Hún er frá árinu 2018 og í leikstjórn Bruno Guerrini og Pascale d'Erm.

Ég glósaði og tók saman það sem kemur fram í myndinni og birti það hér fyrir neðan. Væntanlega höfum við velflest fundið hvað náttúran hefur góð áhrif á okkur en þrátt fyrir að hafa upplifað það, er oft spurt um sannanir og hér er yfirlit yfir margar rannsóknir sem hafa verið gerðar á áhrif náttúrunnar á fólk.  

Rannsóknum á áhrifum náttúru á heilsu er að fjölga gífurlega. Árið 2015 var búið að gera 45 rannsóknir og árið 2018 voru þær orðnar yfir 350 í heiminum. Það eru gjarnan fjölfagleg rannsóknarteymi sem taka höndum saman í þessum rannsóknunum.  

Hefur upplifun okkar af náttúrunni mælanleg áhrif á líkamann og hver eru þau áhrif? 

Í Japan hafa skógarböð (shinrin-yoku) verið iðkuð lengi en með þeim er verið að hagnýta sér mátt skógarins til að lækna og koma í veg fyrir sjúkdóma. 

Þegar tré er snert bregst það við í vörn og dreifir efnum til að verja sig. Þetta eru til dæmis árásir skordýra, baktería eða fugla. Efnunum sem trén dreifa eru mjög góð fyrir mannverur. Þess vegna snertum við trén eða föðmum til að örva þau. Ef við erum hjá trénu í smá stund eftir að hafa gert þetta, dreifir það læknandi efnum yfir okkur. 

Prófessor Qing Li, læknir og ónæmisfræðingur við Læknaskóla Japans í Tokyo hefur rannsakað áhrif trjáa á ónæmiskerfið okkar. Árið 2006 var hann fyrstur til að sanna að ilmefni sem tré gefa frá sér virkja frumur í okkur sem efla ónæmiskerfið okkar.

  • það mikilvægasta er lyktarskynið sem fangar viss lífræn efnasambönd trjánna

  • efnasamböndin eru ilmolíur og rannsóknir þeirra sýndu fram á að þær efla náttúrulegar drápsfrumur í fólki 

  • Drápsfrumur eru hvítkorn, ónæmisfrumur og er hlutverk þeirra að drepa illkynja frumur, sýkla og slíkt. Fyrir heilsuna okkar eru þetta mikilvægustu frumurnar. 

  • Skógarbað í 3 daga og 2 nætur eflir virkni drápsfrumanna um 52%

  • Virknin helst mikil í 30 daga og áhrifin er hægt að framlengja ef dvalist er mánaðarlega í skógi. Einnig má nota ilmkjarnaolíur heima við þó ekkert komi í staðin fyrir að upplifa með öllum skilningarvitunum að vera í kyrrlátum skógi í slökun og ró.  

Prófessor Yushifumi Miyazaki við háskólann Chiba í Tókýó hefur rannsakað skógarböð í 25 ár og áhrif þeirra á heilann, taugakerfið og streituhormón. 

Rannsóknir hans hafa sýnt að: 

  • náttúran róar okkur  

  • starfsemi heilans róast í skóginum 

  • í stórborgum eykst starfsemi heilans hins vegar verulega 

  • Starfsemi sefkerfisins í ósjálfráða taugakerfinu eykst um 50% miðað við borgina. Sefkerfið er ábyrgt fyrir ró og hvíld líkamans. 

  • Kortisól, streituhormónið í líkamanum, mælist 12% minna í skógum en í stórborg 

  • Náttúran hefur því raunveruleg og skjót áhrif á ástand tauga, tilfinninga og líkama.

Rannsóknirnar fóru fram víða í skógum Japans og algengust voru cyprusviður og fura. 

  • Því er nauðsynlegt að endurheimta tengsl við náttúruna til að fyrirbyggja streitutengda sjúkdóma sem myndast við of mikla þéttbýlismyndun og gervivæðingu. 

  • Skógur hefur þýðingarmikil áhrif í fyrirbyggjandi lækningum. 

Gögn Miyazaki eru greind frekar í háskólanum Chiba: 

  • meðferðargildi náttúrunnar á skynfærin fimm: 

    • sannað er að snerting við hrávið er betri til að róa heilastarfsemi og létta spennu af líkamanum heldur en snerting við málm. Áhrifin eru minni ef viðurinn er lakkaður.  

    • Ilmkjarnaolía úr sedrusviði hefur sterk áhrif í gegnum þefskynið á randkerfið (limbic system) en það er miðstöð tilfinninga.

    • Þegar horft er á tré þá lækkar blóðþrýstingur hraðar en ef horft er á þéttbýli 

    • líkaminn er gerður til að lifa í náttúrunni og líkaminn stillir sig saman við skóginn og náttúruna. Skógarbað snýst um að ná aftur þessu jafnvægi. 

  • Náttúran lagar lífeðlisfræðilega þætti sem streita hefur raskað og kemur þeim aftur í jafnvægi. Þetta jafnvægi eða samstilling veitir okkur ró og lífsþrótt (vitality) sem er nauðsynlegur.    

https://planetaryinternational.com/people/dr-qing-li/ 

En getur náttúran haft áhrif á hugann líka? 

Uppsalaháskóli í Svíþjóð, sálfræðideild. Terry Hartig, umhverfissálfræðingur.   

Hann er einn sá fyrsti sem beitir sér fyrir alvöru að rannsóknum á áhrifum náttúrunnar á starfsemi hugans. 

Hann rannsakar áhrif náttúrunnar gegn andlegri þreytu aukinni námshæfni og einbeitingu. 

Þau rannsaka hvíta vetrar umhverfið á norðlægu slóðunum. Það er mikilvægt fyrir fólk að koma út í snjóinn og kunna að meta það sem hvíta landslagið, vetrarlandslagið hefur að bjóða. 

  • vetrarumhverfið eru krefjandi aðstæður, það þarf að vera undirbúin með því að klæðast rétt til að halda á sér hita 

  • þegar við komum vel útbúin út í vetrarnáttúruna þá stuðlar það að endurnæringu 

  • við getum fundið ró og hreinsað hugann, beint athyglinni að umhverfinu, fegurðinni í náttúrunni. Daglegar áhyggjur og annríki gleymast.    

  • Náttúran hefur áhrif á vitsmunalega snerpu, framkvæmdahraða og minni

  • Regluleg útivera í náttúrulegu umhverfi eins og 30 mínútna göngutúr utandyra eða hugleiðsluganga í gróðurhúsi eykur einbeitinguna, athygli, vinnusnerpu og minni.

  • Útiveran verndar fólk gegn geðrænum og líkamlegum kvillum. 

Hvaðan kemur þetta endurnærandi afl náttúrunnar?  

Terry stýrði alþjóðlegri rannsókn með vísindamönnum frá 20 löndum og þúsundum þátttakenda til að kanna það.

Kenning um endurnærandi umhverfi hefur verið skoðuð í áratugi. 

Hún er um það að þegar fólk er í náttúrulegu umhverfi geti það reitt sig á áreynslulausa athygli (effortless form of attention). 

Höfundar hennar eru Steven og Rachel Kaplan og kalla áreynslulausa athygli, “hrifningu” (facination). Fólk fer út í náttúrulegt umhverfi og getur slakað á athyglinni, virt fyrir sér landslag, einkenni náttúrulegs umhverfis; látið hugann reika og kanna. Þetta vekur athygli viðkomandi án þess að krefjast áreynslu. 


Þegar við virðum fyrir okkur fegurð náttúrulegs landslags, fer heilinn inn á bylgjulengd sem er ekki svefnástand heldur vakandi ástand. Þetta gerir heilanum kleift að losa sig við andlega þreytu.  

Í dag eru svo margt fólk ótengt við náttúrulegt umhverfi að það veit ekki hvað hefur glatast. 

Þetta er ein af kveikjum á náttúru og heilsu; að hjálpa fólki að gera sér grein fyrir gildi upplifana í náttúrulegu umhverfi. 

Náttúran endurfrumstillir heilann. Öll getum við valið okkar endurnærandi umhverfi út frá eigin uppáhalds landslagi, náttúrunni í nágrenni við heimili og vinnu. 

Þýskaland, Mannheim. 

Prof.Meyer-Lindenberg, taugasérfræðingur. 

Hann var fyrstur til að koma auga á áhrif náttúrunnar á starfsemi taugakerfisins. 

Með rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature 2011, staðfesti hann að í heilanum væri svæði sem virkjast einungis við áhrif félagslegrar streitu sem tengist lífi í þéttbýli. Svæðið er mandlan, miðstöð kvíða. 

Mandlan virkjast við félagsstreitu og fer eftir stærð borgar sem er búið í.

Í dreifbýli virkjast mandlan ekki en hún virkjast því meira eftir því sem borg er stærri. Ofvirk mandla er sú heilastarfsemi sem gerir okkur móttækileg fyrir kvíðaröskun og þunglyndi. Aukningin á þessum röskunum í borgum nemur um 40-50% á heimsvísu.   

Hvernig geta borgarbúar dregið úr þessum skaðlegu áhrifum borgarinnar? 

Rannsóknir hans sýna að það eru mjög sterk tengsl milli þess hversu mikið við förum á græn svæði, hvernig okkur líður og hvaða áhrif þetta hefur á heilann. Græn svæði eru því mjög mikilvægur þáttur til að gera borgir heilnæmari.  


Bandaríkin: 

Stanford Hefur náttúran áhrif á hugarástand okkar? 

Þar var í fyrsta sinn sýnt fram á árið 2015 að náttúran dregur úr neikvæðum hugsunum sem orsakar þunglyndi. 

Gretchen Daily, umhverfisvísindamaður: 

Aftenging við náttúruna hefur í för með sér mikla áhættu fyrir heilsuna. Til dæmis aukningu á röskunum sem tengjast kvíða, þunglyndi, athyglisbrest og ofvirkni. 

Í Stanford greina þau Grechen Daily og Gregory Bratman umhverfissálfræðingur hjá Washingtonháskóla hvernig náttúran getur virkað sem lyf gegn þunglyndi.  

Þau komust að því að grufl minnkar hjá fólki sem er í náttúrunni miðað við þau sem eru í borgarumhverfi.  

Grufl eru endurteknar hugsanir sem snúast um neikvæða sýn á sjálfið og tengjast auknu neikvæðu hugarástandi. Þær geta verið áhættuþáttur þunglyndis.  

Í sefandi og allumlykjandi náttúru eða andspænis vissu lifandi umhverfi, linast andlegur og tilfinningalegur sársauki okkar. Þetta er mjög mikilvæg uppgötvun. Kvíði og þunglyndi eru helstu sjúkdómar okkar tíma og mikilvægt að nýta allar leiðir sem virka til að vinna á þeim. 

Ein ástæða af hverju náttúran hefur þessi góðu áhrif er að ef verið er úti í náttúrunni finnst okkur við vera tengdari einhverju stærra en sjálfum okkur. Kannski beinum við bara athyglinni frá okkur sjálfum og það minnkar gruflið.  

Því er mikilvægt að auka og auðvelda aðgengi að grænum svæðum. Það verður líka að vernda þau gegn eyðileggingu því náttúrusvæðum fækkar stöðugt. 

Ganga í náttúrunni minnkar streitu, styrkir ónæmi, hjálpar okkur að mæta áskorunum hversdagsins, bætir lundar okkar og verndar gegn geðröskunum. Þessi leið er meira að segja ókeypis og án lyfja og þar með án aukaverkana. 

En ef við komumst ekki líkamlega út í náttúruna?

Hefur það áhrif að horfa á náttúruna?  

Roger Ulrich, prófessor í byggingarlist, Chalmers-tækniháskólinn í Gautaborg: 

Hann var fyrstur til að sanna jákvæð áhrif náttúrunnar á þau sem lágu á sjúkrahúsi. Hann birti grein í tímaritinu Science 1984 um áhrif þess að horfa á náttúru. Bornir voru saman tveir hópar sem annars vegar horfðu út um glugga á sjúkrahúsi á náttúru og hins vegar sem horfði út um glugga á múrvegg. Aðeins viku seinna sást munur á sjúklingunum. Þau sem horfðu á náttúru sýndu betri bata, þurftu minni verkjalyfjaskammta og dvöldu næstum einum degi skemur á sjúkrahúsinu. 

Gróður í og við sjúkrahús fær fólk til að upplifa sig velkomið og skynjar meiri umhyggju.  

Frakkland

Í Pitie Salpetriere í París hefur Anne Ribes, garðyrkjuhjúkrunarfræðingur unnið með náttúruupplifun einhverfra barna, aldraðra og heilaskaddaðra síðan 1997. Garðyrkjan og náttúrutengingin lætur þeim líða betur, þau slaka á, skynfærin fá örvun á góðan hátt. 

  

Belgía, Eric Lambin, landfræðingur og rannsóknarmaður í Louvain la Neuve og í samstarfi við Stanford í Kaliforníu. Skoðar hvers vegna sumt landslag gerir okkur hamingjusamari en annað. 

Hann segir okkur frá Edward Wilson prófessor við Harvardháskóla sem mótaði kenningu um “lífsækni” á 9.áratugnum. Samkvæmt henni hefur fólk eðlilegar mætur á náttúrunni (en ekki áunnar). Þetta hefur þróast í takt við þróun mannapa og manna í 350 þúsund ár. Við skynjum takt náttúrunnar og fáum á tilfinninguna að líf okkar hafi tilgang, að við séum hluti af flæði. Tengslin við náttúruna geta verið alls konar, hæg eða hröð, ganga, reiðtúr, sigling og hvaðeina eftir óskum fólks, gildum og daglegri rútínu.

Lambin minnir okkur á að tengslin við náttúrulegt landslag er skráð í sammannlegar rætur og minni jafnvel þó við höfum aðlagað okkur að borgarlífi. 

Náttúran er bráðnauðsynleg fyrir heilsuna og við getum tengst henni til dæmis með því að færast nær þeim lífverum sem hún hýsir, annast plöntur, tengjast árstíðum og tíma sem er bundinn venjum frá rótum okkar. Þannig getum við aftur orðið hluti af stærri heild þar sem þarf ekki alltaf orð til að tengjast. 

Kanada, Stanley park. 

Cecil Konijnendijk, sérfræðingur í þéttbýlisskógrækt. 

Þau hafa kortlagt upplifunargildi skógarins í Stanley park. Þar eru bæði svæði þar sem fólk getur komið saman og önnur þar sem er endurnærandi ró. Garðurinn er hannaður með alhliða heilsu í huga. Það er líkamleg og geðræn vídd og félags- og menningarleg vídd. Alls staðar finnst fólki gott að koma á svæði sem eru opin svæði með trjám og þar sem er hægt að horfa á trén og líka sjá á milli þeirra og í kringum sig. Því er mikilvægt að hanna skóga í þéttbýlum þannig að þeir gagnist öllum hinum mismunandi þörfum fólks. 

Að lokum

Að fanga orku trjánna. Orka trjánna er máttur sem vinnur gegn þunglyndi og streitu. Orka trjánna er ilmkjarnaolíurnar sem hafa áhrif á ónæmi okkar. Náttúran er ekki bara gagnleg fyrir okkur heldur lífsnauðsynleg. 

Í náttúrunni getum við gleymt okkur ef við leyfum okkur að hlusta eftir því sem kallar á athyglina. Þá er auðvelt að fara í flæði en það er tilfinningin að njóta andartaksins svo sterkt að við gleymum öllu í kringum okkur. Við gleymum okkur í því sem við elskum að gera og það er mjög róandi. 

Rannsóknir síðustu 25 ára hafa byggt upp þekkingu og óhrekjanlega sönnun á áhrifum og mikilvægi náttúrunnar á heilsuna okkar og líf. Við verðum að koma náttúrunni aftur inn í daglegt líf fólks. 

Frá ómunatíð hefur mannkynið átt samband við náttúruna. Við þörfnumst hennar líkt og hún þarfnast elsku og virðingar frá okkur. Við erum náttúran. Að skemma náttúruna jafngildir að skemma okkur sjálf.

Þín leið