Er tími fyrir nám ef ..
Hef ég tíma fyrir nám ef ég er í vinnu og með börn?
Ég hef upplifað það að vera í námi með börn og heimili. Seinna líka í námi með vinnu og heimili (en það er önnur saga). Hvernig fór ég að þessu og er þetta sniðugt?
Það getur gengið upp en það eru líka til margar sögur um ofálag. Það er ekki í lagi að ganga lengi á eigin svefntíma og orku. Að vera í 100% vinnu og 50-100% námi er ekki sniðugt en það heyrðist oft og jafnvel ennþá. Ef við bætist umönnun skyldmenna og heimilis þá er þetta beinlínis ávísun á orkuþrot.
Það er hins vegar ekki þar með sagt að þú getir ekki blandað þessu að einhverju leyti saman. Stundum er það eina leiðin til að geta lokið því námi sem þú kýst til að komast í draumastarfið.
Öll erum við ólík og aðstæður mismunandi. Það sést ekki utan á okkur hvernig við hugsum okkar plan, við verðum sjálf að meta, stundum með góðu fólki, hvort áætlunin gangi upp eða ekki.
Mig langar að segja ykkur frá minni reynslu af þessu, að fara í nám og vera með ung börn og heimili.
Þetta var eins árs nám á þeim tíma, stíft nám sem myndi veita mér starfsréttindi. Ég hafði lokið grunnnámi á háskólastigi og tekið nokkurra ára pásu vegna barnsburða, fæðingarorlofa, tímabundinna starfa og umhugsunartíma um hvaða framhaldsnám ég ætlaði í.
Þegar ég fann fagið sem ég brann fyrir sem var á þeim tíma eins árs viðbótarnám þá var þetta spurning um að sjá út hvað mikill tími var mögulegur fyrir námið, skipta verkum og finna úrræði um pössun. Þetta var stíft eins árs nám sem gæfi leið inn í starf að því loknu. Það var því til þess vinnandi að leggja á mig þá vinnu og skipulag sem þetta krafðist.
Það var mögulegt að dreifa námsárinu á tvö ár og ég íhugaði þann kost en sá að því fylgdu ákveðnir ókostir. Hins vegar sá ég að hinn kosturinn, að taka eitt stíft ár, væri gerlegur fyrir mig á þeim tíma og líka kostur að komast í launað starf að ári frekar en að tveim árum liðnum. Reglur lánasjóðs námsmanna spiluðu inní en hann gerði mér kleift að fara í námið. Annars hefði ég hiklaust reynt að finna aðra leið til þess.
En allavegana …… hvernig gekk þetta og hvað þurfti til?
Staðan var þannig að með tvö börn .. eitt á yngsta stigi grunnskóla og eitt í leikskóla … þá var talsverð rútína til staðar. Börnin með skýran viðverutíma í skólum og ekki að rápa heim allt í einu eins og gengur með eldri börn eða unglinga. Sem sagt næði til að læra yfir daginn. Heilir 7 - 8 dýrmætir klukkutímar alla virka daga. Stöku sinnum komu upp veikindi sem er alltaf óvissuþáttur en annað var hægt að sjá fyrir. Eins og stöku frídagar í skólunum, fjölskyldufrí og slíkt.
Besta verkfærið var að ramma inn mánuðina og vikurnar. Búa til eigin stundaskrá utan um fasta liði vikunnar eins og mæting í tíma, matartímar og fjölskyldutíma. Taka líka frá tíma í hreyfingu, svefn og eigin frítíma. Þó frí væri af skornum skammti þá eru þau nauðsynleg og örfáir hálftímar hér og þar gera mikið. Það var virkilega gott að minna mig stundum á að þetta væri bara einn vetur í þessum stífa tímaramma.
Það var líka mikilvægt að ákveða hvar ég ætlaði að læra þessa virku daga. Ég gat komið mér upp skrifstofurými þar sem námsgögnin voru í friði. Það getur tekið dýrmætan tíma að þurfa að setja bækur og blöð niður í tösku og pakka síðan aftur upp til að byrja að lesa og skrifa.
Ég veit að aukarými er ekki alltaf fyrir hendi en til að hjálpa þér að taka þér pláss þá er gott að minna sig á að þú ert í náminu til að auka lífsgæði; starfsgleði, tekjur og tækifæri. Takist að ljúka þá ert það ekki bara þú sem nýtur góðs af heldur nánasta fólk líka. Með meiri starfsgleði verður þú glaðari, með meiri tekjum verður þú líka ánægðari og afslappaðri til dæmis ef streita vegna fjárhags verður minni eða engin. Það er því engin sjálfselska að taka sér lærdómsrými sem þarf á heimilinu þótt fleiri búi þar. Líka þó að hægt sé að læra í skólanum eða bókasafni.
Undirbúningurinn skiptir sem sagt mjög miklu við að undirbúa stað til að læra á og ramma inn tímann. Ég losaði mig við einhver af heimilis- og umönnunarstörfum og þau sem ég sinnti setti ég á dagskrá ákveðna daga vikunnar eða í mánuðinum. Matarinnkaup voru sem sjaldnast og ég sá ekki alltaf um þau. Það er reynandi að nota sama innkaupalista og matseðil sem nær yfir eina eða tvær vikur. Þó það hljómi ekki spennandi þá er allavega til matur og ekki þörf á að hugsa aftur og aftur hvað eigi að vera í matinn. Það sparar tíma og síður gripið í óhollan skyndimat.
Síðan reyndi ég að hafa einn þvottadag í viku og minnka almennan drasl stuðul þó að einstaka sinnum hafi mér þótt ótrúlega brýnt að skúra svalirnar frekar en að skrifa ritgerð.
Ég festi líka frítímann minn á vikuáætlunina. Þar sem ég hafði næði alla virka daga þá gat ég sinnt börnunum síðdegis, á kvöldin og um helgar. Þegar ég þurfti meiri tíma þá fór ég hálfan eða heilan helgardag á bókasafnið og faðir eða ættingi hugsaði um börnin.
Rútína er lykill og líka að standa upp frá bókunum reglulega og teygja sig. Hafa skýrt afmarkaðan tíma fyrir hádegis- og kaffihlé og líka stóran lista með öllum verkefnaskilum uppi á vegg.
Það hjálpaði mér mikið að setja mánaðaryfirlit fyrir alla mánuði annarinnar upp á vegg þar sem hver mánuður er á A4-blaði. Á þau skráði ég skiladaga, frídaga í skóla, viðburði hjá mér eða fjölskyldu. Þannig var ég með góða yfirsýn yfir það sem var framundan og gat betur byrjað tímanlega á verkefnum.
Það er líka mikilvægt að hafa skýrt umbunarkerfi fyrir sig … hafa gulrót til að hafa sig í að lesa einn kafla enn. Mig minnir að ég hafi skráð niður hvað ég lærði mikið á hverjum degi og eftir ákveðinn fjölda klukkutíma fékk ég mér kaffibolla, súkkulaði, fór í hjólatúr eða annað. Frítími dagsins var allavega með góðri samvisku því það er mikilvægt í námi að eiga frí og vera ekki alltaf með námið hangandi yfir sér. Það er til dæmis hægt að reikna út hvað er eðlilegt að gefa námi marga klukkutíma miðað við einingafjölda. Ná því tímamagni fyrir námið og restin er frítími.
Að því leyti er nám erfitt af því þar er ekki stimpilklukka. Þú stimplar þig ekki út og ert komin í frí nema þú búir þér til vikuplan - eigin mætingarsamning. Annars er stutt í samviskubitið um að finnast þú eiga að vera að læra. Það er mikilvægt að losa sig við þessa hugsun. Það er nauðsynlegt að setja viðmið um vinnutímann og gera áætlun um hvenær eigi að læra en líka um frítímann og hvenær er hvíld og frí.
Það er í raun stundum gott aðhald að vera með börn og í námi. Þá er oft auðveldara að setjast og læra en ekki treina það fram eftir degi ef fólk hefur allan tímann fyrir sig. Það var mín reynsla þegar ég var í námi án barna. Þá var ég oft að fara illa með tímann og dróst aftur úr áætlun. En þegar ég var í námi og átti börnin þá varð ég að fara vel með tímann og gerði mjög góða ramma fyrir mig til að vinna eftir.
Mig langaði að skrifa þetta því ég veit að alltaf er einhver í þessum sporum. Vonandi gagnast þessar pælingar einhverjum. Það sem ég lærði af þessari reynslu var að það er þess virði að byrja. Málið er að ákveða hvenær þú byrjar og undirbúa það síðan eins vel og þú getur.
Það er síðan ekki hægt að undirbúa endalaust, þegar hæfilegum undirbúningi er lokið þá er ekkert annað í stöðunni en að byrja … henda sér út í þetta. Leggja af stað í þessa vegferð og leyfa henni að mótast á leiðinni.
Þú mótar vinnuskipulag og ryþma og treystir að það sé nógu gott til að byrja með. Það fullkomnast bara við notkun. Ef dæmið gengur upp þá er það frábært, ef það gengur ekki upp þá er að stokka upp á nýtt og finna nýja leið .. nýtt skipulag .. ný úrræði.
Gott skipulag skiptir öllu.
Skráðu þig á póstlistann til að fá tilkynningar um nýja pistla