Að fjármagna nám

Hvernig fjármagna ég námið mitt? Til að byrja með vil ég nefna að það eru upp til hópa foreldrar sem eru helsti styrktaraðili nemenda við að fjármagna nám. Það birtist helst í formi húsnæðis, matar, vasapeninga og oft á tíðum bókakaupa og skólagjalda. En fyrir utan nánustu ættingja þá eru ýmsar leiðir til sem fólk hefur nýtt sér til að fjármagna nám. 

Byrjum á að skoða hlut foreldra í dæminu.  

En jii, ef við hugsum til allra kostanna við að búa í foreldrahúsum meðan verið er í námi. Frí þvottavél og net, sjónvarp, ísskápur með mat alla jafna, rafmagn og heitt vatn, kaffivél og kaffi .. sérherbergi og … já bara hótel mamma í mörgum tilfellum. Ég segi ekki að við kunnum ekki að meta þetta meðan við erum þar en … vissulega blasir það við miklu skýrar eftir að flutt er að heiman hvað þetta er mikill lúxus. Erum kannski flutt að heiman og orðin námsmenn á heimavist, í námsmannaíbúð, leiguíbúð eða eigin húsnæði. Þegar þarf að fara út í búð eftir nauðsynjum, borga rafmagnsreikninginn, netið og hússjóð. Vega og meta hvort spotify eða netflix sé alger nauðsyn eða eiga frekar fyrir bleki í prentarann. Já vittu til, ef þú ert enn í foreldrahúsum, notaðu þá tækifærið virkilega vel og settu námið í fyrsta sæti. 

Hvernig getum við þá framfleytt okkur þegar við stöndum á eigin fótum? 

Það er mjög oft vinnan sem bjargar málunum en fjöldi fólks vinnur með námi og á sumrin til að fjármagna námið. Þá togast auðvitað á að vinna nógu mikið til að fá ákveðna upphæð útborgaða en ekki of mikið til að hafa tíma fyrir námið. Þetta er málamiðlun milli þess að vinna fyrir einhverju lágmarki og hafa ásættanlegan tíma eftir fyrir ákveðið marga kúrsa eða áfanga. 

Það er líka hægt að taka pásu og vinna í hálft eða heilt ár og geta svo verið í aðeins meira námi í einu. Þá þarf líka að skoða hverjar líkurnar eru á að komast í skólann þegar sækja á um. Skiptir aldurinn máli? Eru meiri líkur á að komast í námið áður en ákveðnum aldri er náð? Almennt séð eru ekki efri aldurstakmörk á háskólastigi á Íslandi en framhaldsskólar verða hins vegar að miða við ákveðna forgangsröð umsækjenda út frá aldri og fleiri atriðum. 

Svo eru það námslán sem gera mörgum kleift að fara í nám. Lánshæft nám er hægt að sjá á heimasíðu Menntasjóðs námsmanna. Iðnnám og margt annað starfsnám á framhaldsskólastigi er lánshæft og líka nám á háskólastigi, bæði hérlendis og erlendis. Það þarf að uppfylla ákveðnar kröfur. Til dæmis að ljúka ákveðið mörgum einingum á hverri önn og það getur verið pressa að ná því.  

Hægt er að kanna möguleika á styrk til náms á framhaldsskólastigi til framfærslu, bókakaupa og skólagjalda hjá sveitafélögum ef tekjur einstaklings eða fjölskyldu eru undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Til að skoða það er best að panta tíma hjá félagsráðgjafa í viðkomandi sveitarfélagi og kanna málið. Þau sem fá þannig styrk mega yfirleitt ekki vinna mikið með og geta því einbeitt sér að náminu.     

Starfsfólk sem er í stéttarfélagi fær ákveðna upphæð árlega til að sinna endurmenntun. Hægt er að nota þá styrki í allskonar námskeið, nám eða bókakaup og um að gera að nýta það. Hver sjóður hefur sínar úthlutunarreglur sem hægt er að skoða á heimasíðu stéttarfélagsins. Þessir peningar geymast ekki endalaust og geta verið einhverjir tugir þúsunda árlega en fer eftir starfshlutfalli. 

Það munar um allt og ættingjar ættu endilega að minna yngra fólkið á þetta. Ef það er stutt síðan þú komst á vinnumarkað og hefur ekki sótt um styrk úr endurmenntunarsjóði áður, þá skaltu endilega sækja um eða fá aðstoð við það. Starfsfólk stéttarfélagsins eða ættingjar og vinir gætu eflaust aðstoðað ef þarf. 

Ýmsar stofnanir, grasrótarsamtök, fyrirtæki, bankar og fleiri veita ýmsa styrki til náms. Það er þá auglýst á heimasíðum þeirra og víðar. Það þarf að fylgjast með auglýsingum frá þeim eða gúgla og sækja svo um. Fylla út góða umsókn, vanda hana vel og vona það besta. 

Menntun, endurmenntun og símenntun er mikilvæg allt lífið. Það er bæði gefandi og mikilvægt að bæta við sig þekkingu og færni alla ævi og viðhalda henni líka. Það er okkar sjálfra að vega og meta eigin þörf, óskir og áhuga í þeim efnum og henda sér svo í að framkvæma það. 

Skráðu þig á póstlistann til að fá tilkynningar um nýja pistla