Tekur því að fara í nám?

Nám á öllum aldri; aldursfordómar; aldrei of seint fyrir nám;

Tekur því að fara í nám núna? 

Ertu að meina á þínum aldri? Já því ekki? 

Ertu að telja þér trú um að þú getir ekki gert eitthvað af því þú ert á tilteknum aldri? Eitthvað sem fólk á þínum aldri er yfirleitt ekki að gera og þú sleppir því þá þótt þig langi.


þegar ég varð 55 ára þá fann ég svo vel og næstum áþreifanlega fyrir tímanum. Eins og ég stæði á víðavangi og sæi jafnlangt tuttugu ár aftur og fram í tímann. Enda var jafn langt síðan ég var 35 ára og þangað til ég yrði 75 ára. Tíminn frá 35 til 55 ára var ótrúlega langur þegar ég hugsaði um farinn veg. Eins og mörg fyrri lífi væru á því tímabili þegar ég hugsaði til baka. Næstu 20 ár ættu þá að vera jafn mikill tími er það ekki. Samt er talað á annan hátt um það tímabil, eins og það séu færri tækifæri framundan. Það er auðvitað alrangt því allt er þetta háð ákvörðunum, viðhorfi og að moða úr því sem hægt er. Rétt eins og á árunum á undan. 

Með aldrinum skynjum við oft að tíminn líði hraðar. Kannski er það með fleiri tækifærum, fleiri verkefnum sem við hlöðum á okkur. Það er þá bara að taka stjórnina á sínum tíma og velja vel það sem er gert við tímann. Þar kemur hins vegar viðhorf sterkt inn og mikilvægt að láta þau ekki taka stjórnina. Viðhorf sem tengjast aldri segja okkur ýmist að við séum of ung eða of gömul. Samt vitum við eftir smá umhugsun að aldur segir ekki endilega neitt um hvað við getum gert. Það fer allt eftir heilsu, viðhorfi og í hvaða æfingu við höfum haldið okkur. 

Viðhorf um aldur, öðru nafni aldursfordómar finnast á öllum aldursskeiðum:  

  5 ára erum við talin of ung til að passa okkur í náttúrunni en of gömul fyrir að sitja í kerru. 

15 ára erum við talin of ung til að velja nám en of gömul fyrir lego. 

25 ára erum við talin of ung fyrir barnauppeldi en of gömul fyrir að leika okkur um heiminn.

55 ára erum við talin of ung fyrir eftirlaun en of gömul til að skipta um starfsvettvang. 

75 ára erum við ekki talin of ung fyrir neitt en of gömul til að fara í nám. 

95 ára erum við bara talin gömul og varla talin fær um sjálfræði. 

Hvað ef þetta er allt saman rangt? Auðvitað er þetta allt rangt. Þetta er allt spurning um val og að moða úr því sem hægt er óháð hvað er viðtekin venja. 

Það er ekki ákveðið dress code út frá aldri þó að sum láti eins og svo sé. Það er ekki ákveðin áhugamál sem þú átt að stunda eða átt ekki að stunda út frá aldri þó sum láti eins og svo sé. Það er heldur ekki ákveðinn lokaaldur fyrir nám þó að valmöguleikum fækki vissulega í sumt eftir aldri. Þetta er spurning um sjálfstraust og sjálfstæði við að hugsa þetta út frá hvað þig langar en ekki hvað öðrum gæti fundist. Allt í lagi að fylgja hópnum sínum í eitthvað áhugamál bara til að vera í félagsskapnum. En ef það er eitthvað í viðbót sem þig langar að taka þér fyrir hendur og einhver viðhorf stoppa þig þá skaltu aldeilis staldra við og vinna á þeim viðhorfum.  

Sem betur fer hafa aldursfordómar breyst mikið milli áratuga en stundum koma nýir í staðin. Það er hægt að skynja aldursfordóma frá öllum aldursstigum um aðra aldurshópa en líka um sinn eigin. Hversu algengur er ekki óttinn um “hvað myndi fólk segja ef” … og botnaðu nú út frá þínum veruleika. 

Sem betur fer er margt fólk á öllum aldri sem hlustar ekki á slíkt og gerir bara hlutina óháð aldri. Það er alltaf á öllum tímum þörf á slíku fólki til að gefa okkur fyrirmyndir til að þora að gera það sem okkur dreymir um, sama hvað við erum gömul. Ef þú finnur ekki slíka fyrirmynd, vertu þá sú fyrirmynd. Við erum öll fyrirmynd einhverra á einhverjum tímapunkti þó við fréttum kannski aldrei af því.   

En erum við einhvern tíman of gömul til að fara í nám? Svari því hver fyrir sig. Of gömul fyrir hvað? Ertu þá að hugsa út frá því hvað er algengt í kringum þig eða eftir því það er viðtekin venja? Þá eru viðhorfin eða fordómarnir of ráðandi mögulega. Nám til að nýta það hvernig? Tekur það því ef það kallar á nýja starfsvettvang eða muntu njóta þess óháð starfi. Nám er bæði til að nýta í starfi og líka í persónulegu lífi. Við gætum nýtt námið í aukastarf, sjálfboðastarf eða sjálfstætt starf. Hvað tekur til dæmis við eftir starfslok, þegar hægt er að fara á eftirlaun. Hjá mörgum tekur þá við alls konar vinna .. launuð eða ólaunuð eða bæði. Það er bara alveg frjálst. Hvað langar þig? 

Aðeins eftir ýmsar svona pælingar getum við svarað spurningunni um hvort það taki því að fara í nám núna … sama á hvaða aldri þú ert. 

Á hverju ári er fólk að ljúka framhaldsskóla löngu eftir þrítugt og líka eftir fertugt og fimmtugt. Fleiri og fleiri fara í háskólanám á eftirlaunatíma. Til dæmis lauk Björk Guðjónsdóttir doktorsprófi 78 ára árið 2019 en hún hafði hafið nýtt grunnnám í háskóla þegar eftirlaunatími tók við af föstu starfi. Þar með gaf hún mikið rannsóknarstarf til baka til samfélagsins og hefur möguleika á að halda rannsóknarstarfi áfram. 

Á hverjum tíma ævinnar finnum við hvað vekur áhuga og drifkraft. Ef það er nám sem kallar á þig þá er ekki of seint að byrja í því ef tækifærið er fyrir hendi.