Þín leið áfram
Við höfum mismikla þörf fyrir að staldra við og endurmeta okkar eigin stefnu í lífi og starfi. Það þarf ekkert stöðugt að vera að íhuga þetta því á milli þess sem við gerum það þá erum við að lifa lífinu, gera það sem þarf að gera, lifa hvern dag og helst að njóta.
Það er líka áhugavert að láta lífið gerast og sjá hvað kemur til okkar, fylgja flæðinu. Það er hvers og eins okkar að velja það fyrir sig hvaða háttinn við höfum á þessu með að marka stefnuna oft eða sjaldan.
Það eru ákveðnir kostir við að gefa sér reglulega tækifæri til að staldra við og íhuga okkur sjálf. Pæla í hvað okkur finnst gaman, áhugavert og þess virði að verja tíma í. Rifja upp gildin, hvað ég vil gera, æfa og læra betur og til hvers. Hvernig vil ég sjá framtíðina mína.
Ef við líkjum starfsferlinum við bílinn okkar þá er auðvelt að sjá af hverju við ættum að tékka á honum (starfsferlinum) reglulega.
Við förum með bílinn í skoðun árlega þó að hann sé í fínu lagi og ekkert að. Jú vissulega af því að það er skylda. En það verður til þess að við keyrum hann ekki í þrot einn daginn. Þá koma smábilanir í bílnum í ljós áður en þær verða alvarlegri og fleiri.
Sama er málið með okkur sjálf og starfsferilinn. Ef við stöldrum markvisst og reglulega við, þá lögum við smáhnökra og gerum minni breytingar sem við viljum gera. Þú færð með tímanum skýrari mynd af því hvað þú vilt gera við tíman þinn. Það er mun auðveldara að taka stöðuna reglulega en að þurfa að laga margt og mikið í einu ef við höfum trassað okkur sjálf og starfsferilinn lengi. Taktu reglulega frá tíma fyrir þig. Þú munt þakka þér fyrir það.
Það er innbyggt í okkur öll að vilja vaxa og efla okkur. Til að hafa sem skýrasta mynd af því sem okkur langar er mikilvægt að gefa sér tíma til að hugsa um það, tala um það og pæla í því. Þannig taka draumar og langanir smám saman á sig skýrari mynd. Við munum þá oftar eftir því að efla hugrekki og þor til að taka til við nýja hluti sem okkur dreymir um. Við munum þá líka oftar eftir því þegar við erum að venja okkur á nýjan vana til að móta lífið eins og okkur langar.
Viljastyrkurinn eykst eftir því sem við hugsum oftar um hvað okkur langar og markmiðin verða skýrari. Fleira kemst í verk og fleiri markmið nást. Við það eykst hamingja okkar og sjálfstraust og það gefur þér enn meiri trú á þig. Fleiri hugmyndir koma um hvað þig langar að gera, geta og vita.
Þetta tekst með jafnvæginu á milli þess að lifa lífinu í flæði og þess að gefa þér tíma til að íhuga hvað þú vilt leggja áherslu á í lífinu.