Þor

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mannfólkið stórt og mikið. Þegar svo á hólminn er komið breytast allt í einu stærðarhlutföllin og fjöllin verða gríðarstór og við sjálf lítil. Við erum kannski mætt á svæðið og horfum upp á gríðarstórt verkefnið og hugsum „já ok … ÚPS! Hugurinn er þá oft fljótur að byrja að spinna afsakanir og ástæður fyrir að hætta við. Það getur gerst bæði með stór og smá verkefni og núna í sumarbyrjun hef ég tvö dæmi frá sjálfri mér um að hafa guggnað óvænt og er svolítið hugsi yfir því.

Ég las til dæmis um daginn að hægt væri að nota fíflarætur til að hella upp á ágætis kaffi. „Já þetta ætla ég að gera“ hugsaði ég því akkúrat þá stóð yfir kaffitakmörkun sem ég lagði á sjálfa mig. Þetta var í lok maí og allt vaðandi í fallegum fíflum út um allt. Ég stökk út í garð og stakk upp þónokkrar fíflarætur. Hentist inn og hreinsaði og skar í búta sem fóru inn í ofn. Þetta gekk allt ljómandi vel samkvæmt uppskrift og ekkert að vanbúnaði annað en að setja í kvörnina og hella uppá. Nei, nei þá allt í einu hafði ég alls engan tíma og hef ekki „haft tíma“ síðustu tvær vikur. Það væri samt gaman að klára þetta og smakka .. eins og það sé eitthvað að hræðast. Líklega geri ég það úr þessu fyrst ég er að skrifa um þetta enda lítið verk eftir til að klára þetta litla nördaverkefni mitt.

Annað aðeins stærra atriði tók ég mér fyrir hendur um daginn. Ég fór í frí um helgina og ætlaði að nota tækifærið til að tjalda ein úti í móa. Markmiðið var og er að gera það 1 – 2 sinnum á ári til að efla og viðhalda hugrekki og nú eru liðin 2 ár frá því ég gerði þetta síðast (ok .. það var reyndar í fyrsta skipti). Ég keyrði út í buskann og lagði bílnum í einum afdal. Við veginn var mjúkt gróið svæði, mikil kyrrð, björt nótt og væntanlega enginn á leið hingað. Góða tjaldið og hlýr svefnpoki beið í skottinu en nei, ég svaf í bílnum við þröngar aðstæður. Ég þorði þessu ekki á þessum tímapunkti en ég mun reyna aftur.

Við veljum okkur áskoranir og það sem er auðvelt fyrir einhver er erfitt fyrri önnur. Því getum við aldrei sagt hvað er erfitt eða auðvelt nema fyrir okkur sjálf. Sem gönguleiðsögumaður veit ég til dæmis að fyrir sum er það ótrúlega mikið afrek að fara í ferð inn á hálendi þó það sé með hóp. Fyrir önnur er það auðvelt að vera í ósnortnu víðáttunni. Það er samt alltaf upplifun og eflir hugrekkið að fara á framandi svæði og það er þess vegna sem ég nota hálendisferðirnar til sjálfseflingar í mínum hópum.  

Það sama á við um markmiðin okkar. Við setjum þau kannski um áramótin og sum mörg ár fram í tímann. Síðan líður tíminn og allt í einum er komið að þessu. Það er bara þá sem við komumst að því hvort við leggjum í þau eða ekki. Því er svo mikilvægt að yfirfara áætlanirnar mjög reglulega, búta markmiðin niður og gera það sem þarf að gera. Vita af hverju við viljum ná þeim. Verði svo hindrum í veginum er málið að staldra sérstaklega við það og finna leið til að yfirvinna hindrunina eða bara breyta áætlunum og markmiðum. Það má.

Núna eru sólstöður í næstu viku og sólarorkan mikil. Þá gætirðu ef þú vilt, kíkt á markmiðin frá áramótum eða frá því síðast þegar þú endurskoðaðir þau. Hreinsað til í þeim eða yfirfarið áætlunina. Náð í styrkinn þinn og tengt þig inn á við og út á við. Kallað til hugrekkið og nýtt þennan orkumikla tíma til að láta vaða að prófa.

Fíflarætur

Hrönn Baldursdóttir