Ein á ferð um helgina

Ég fór ein í ferðalag um helgina, tjaldaði ein og gekk eina dagleið ein. 

Þetta var ekki meiningin í byrjun en planið hafði verið að fara í þriggja daga göngu ásamt fleirum. Svo breyttust aðstæður hjá þeim og þegar nær dró helginni sá ég að það stefndi í að ég fyndi ekki annað samferðafólk tímanlega. Það blasti við að hætta annaðhvort við, fresta eða fara sjálf … fara ein. 

Innst inn fann ég að ég ætlaði ein. Hafði ekki hátt um það fyrr en kom að helginni og var að leggja í hann. Stefnan var sett á svæði sem er mjög afskekkt og fáfarið en þó með fjallaskála og landverði á næstu grösum. Af hverju gerir fólk þetta? Jú það er til að sækja í ákveðna kyrrð og til að öðlast ákveðinn styrk. Viðhalda styrk og fá nýja reynslu. Málið er að þekkja sín mörk út frá fyrri reynslu, þekkingu og kunnáttu. Ég skráði ferðaáætlunina á Safe travel og hélt af stað.  

Ég tók ákvörðun fyrirfram í hvernig umhverfi ég færi ekki, t.d. að vaða engar ár sem næðu upp í miðjan kálfa og fleira í þeim dúr. Í hvert skipti þarf að endurskoða öll slík mörk. Ferðin tókst mjög vel og ég fann að það skipti máli hvernig ég hafði undirbúið mig andlega dagana á undan. Með því að sjá fyrir mér styrk og þor í væntanlegum aðstæðum. Með því að draga til mín líkamlegan og andlegan styrk, kraft og ákveðni og tjá það í mínu fasi. Ýta frá mér efa, óvissu og óöryggi. 

Fyrir nokkrum vikum fór ég í styttri ferð til að tjalda ein og gugnaði á því. Núna fór ég lengra og afskekktara og hikaði ekki við að tjalda ein. Kannski var munurinn sá að vegir sem ég gekk nálægt voru lokaðir og ég vissi að enginn kæmi keyrandi á bíl þangað sem ég tjaldaði og líklega enginn gangandi þó það sé aldrei að vita. Það var ekkert í náttúrunni sem hræddi mig og hugsaði með mér að hér væri t.d. enginn ísbjörn. Drauga- og tröllahræðsla var ekki til staðar núna. Sem sagt æfingarferðin um daginn og undirbúningur síðustu daga sem ég lýsti áðan skiptu miklu. 

Þegar á hólminn er komið getur verið mismunandi hvað veitir styrk eða öryggi og hvað dregur úr öryggi. Stundum er það einmitt betra að vita af líklegri umferð annars fólks nálægt og stundum ekki. Allt veitir þetta okkur innsýn í eigin hugarheim og aukna sjálfsþekkingu. Í þessari ferð vissi ég af fólkinu í skálunum og það veitti mér öryggi. Líka að vita af tengiliðunum sem ég sendi reglulega skilaboð. Nokkrum sinnum í þessari göngu breytti ég um stefnu eða snéri við og fór nýja leið. Fyrirfram vissi ég ekki hversu langt ég myndi ganga því það var eitthvað sem ég gæti bara ákveðið á hverri stund og stað þegar ég sæi aðstæður og þegar ég gæti miðað út frá minni upplifun á hverri stundu. 

Svona ferð er eins og lífið. Við erum á einhverri leið og reglulega þarf að staldra við til að sjá hvar við erum og íhuga hvort við ættum að feta þennan stíg eða hinn. Að vera stundum ein á ferð gefur okkur meira rými til að taka betur eftir eigin hugsunum og líðan. Sú ferð getur verið í stórborg eða hvar sem er í náttúrunni, bara þar sem við finnum okkur sæmilega örugg. Það er einstaklingsbundið hvar það er og hvað lengi. Hver ferð og hvert svæði þarf ekki að vera merkilegra en annað. Málið er að prófa og vera öðru hvoru ein. 

Framundan eru ný verkefni og það hefur virkað fyrir mig að fara álíka ferðir til að viðhalda og auka styrk. Þá er auðveldara að mæta nýjum verkefnum og vinnulotum af öryggi og gleði.

Hrönn Baldursdóttir