Þar finnurðu hugrekki

Fyrir nokkrum árum fór ég með tveimur konum upp á Rauðkoll sem er upp af Þjófadölum á Kili. Hópurinn var stærri en hin urðu eftir í skálanum. Í fyrstu var smá óvissa með hversu sniðugt væri að leggja af stað. Það var komið kvöld og spurning hvort ætti að nota þessar þrjár klukkustundir í að fara á toppinn eða vera í skálanum og hvíla. Við fórum af stað og sáum alls ekki eftir því. 


Leiðin upp lá eftir aflíðandi hrygg sem blasti við í suð-vestanverðum dalnum og síðan var gangan nokkuð augljós eftir það. Við hverja hækkun og pásu til að pústa urðum við glaðari yfir að hafa lagt af stað. Útsýnið varð tilkomumeira við hverja hæð og þegar við komum upp á stallinn þar sem sást yfir til Langjökuls urðum við dolfallnar. Við vorum svo nálægt jökulrótum og svæðið var svo ósnortið og dularfullt. 


Við gengum á þægilegum ljósum melum sem eru víða mosagrónir. Efsti hluti Rauðkolls er ljóst líparít eða ríólít og litirnir voru svo mjúkir og fallegir. Umhverfið var í töfrandi kvöldbirtu fyrri hluta sumars og bar dulúðug nöfn eins og Þjófafell, Jökulkrókur, Hengibjörg og Fjallkirkja. Yndisleg upplifun og minning eftir á. Dálítið óraunverulegt með þessa jöklasýn, fjallasýn, víðáttuna og ósnortna náttúruna. Hvaða máli skipta þrír tímar ef þú færð þetta að launum. 


Ef þú ert einhvern tíman í vafa hvort það taki því að fara einhverja aukagöngu, kannski þreytt eftir göngu dagsins eða villt ná svefni fyrir göngu morgundagsins þá er gott að minna sig á fyrirhöfnina við að komast á stað sem er langt að heiman. Við erum ekki alltaf hér og kostar peninga og fyrirhöfn að vera komin eitthvert út í óbyggðir. Gríptu þá tækifærið. Segðu já takk. 


Hérna vorum við á toppnum, andaktugar yfir stað og stund og ótrúlega þakklátar að hafa drifið okkur. Það gefur svo mikið meira heldur en bara enn eina gönguna og útsýni. Það er svo mikil orka sem við fáum ef við erum að sigrast á einhverju nýju, fara í óvissuna og sjá að þetta er bara allt í lagi. Það er líka svo hrein orkan sem við fáum við að vera í ósnortinni náttúru og víðerni. Við skynjum hvað hún er forn og þá skynjum við heilagleika við að vera í svona umhverfi. Einmitt það tengir okkur meira við þá orku í okkur sjálfum, heilagan fornan kraft og við finnum að við erum svo öflug, svo sterk og máttug. 


Við komum til baka svífandi, fílefldar, öflugar og óendanlega glaðar. Tilbúnar að takast léttilega á við þau verkefni, markmið eða vandamál sem við vorum að glíma við fyrir ferðina. Ég veit nákvæmlega hvar ég finn hugrekkið, bjartsýnina og þorið til að takast á við næsta skref í hverju sem ég er að fást við. Þegar mig vantar þennan kraft þá sæki ég hann þó að leiðin að honum geti verið mislöng og mislétt. 


Þegar við erum að mana okkur upp í að setja markið hærra og lifa draumana okkar þá getur verið góð æfing að setja sér óraunhæf markmið. Þorum við því? Vissulega er mikilvægt oftast að vinna með raunhæf markmið en á það kannski frekar við skammtímamarkmiðin. Hvað með framtíðarsýnina og langtímamarkmiðin … eða bara villtan skemmtilegan frídag. Er ekki gott að leika sér með að finna óraunhæfu markmiðin sín? Umhverfið okkar er oft meira neikvætt en jákvætt og fullt af varnaðarorðum. Til að vinna á móti því koma “óraunhæfu” markmiðin og draumarinir sterkir inn og vekja okkur til lífsins og hvetja okkur til að gera meira en við héldum að við gætum. Frelsa okkur úr einhverjum fjötrum og hjálpa okkur að blómstra.