Horn í Horn

Horn í Horn á vegum ferðafélagsins Útivistar

Það var að falla að við Bolungarvíkurófæru og hópurinn skundaði rösklega áfram. Flottur hópur í öruggum, jöfnum og hröðum takti í kapp við flóðið. Ég vissi með mér að við myndum ná í tæka tíð en við mættum ekki sóa neinum tíma fyrir utan nokkrar stuttar orkupásur. En ég vissi að við gætum þetta og myndum ná, ég þekkti hópinn minn og hefði annars ekki seinkað brottför í morgun um klukkutíma. Hvernig er annað hægt en að njóta sem lengst Reykjarfjarðarins, heitu laugarinnar og einu gistingarinnar innandyra á þessum legg. Við höfðum farið rólega upp Reykjarfjarðarhálsinn í morgun og um Svartaskarð, hent okkur svo niður hlíðina niður í Furufjörð og á jafnsléttu var gefið í. Furufjarðarósinn vaðinn á skotstundu enda auðveld jökulá og ekkert á við kuldann og strauminn í Reykjarfjarðarósnum í gær. Áfram var skundað framhjá húsum fjarðarins og rétt kastað kveðju á íbúana sem voru eins og kærkomið klapplið í þessu kapphlaupi og sjálfsagt vön svona viðburðum. Nú blasti strandlengjan við og þarna handan ófærunnar gætum við slakað á. Fólk hefur alltaf ákveðinn tímaramma fyrir og eftir háfjöru og við vorum komin vel á seinni hluta fráviksins. Ekki lengur spurning um hvort, heldur hversu djúpt við þyrftum að vaða. Það var okkur í hag að sjórinn var lygn og kyrrt veður. Við nálguðumst stóru björgin sem liggja út í sjóinn og fórum í gegnum hvert haftið af öðru í þessari fegurð. Gáfum smátíma fyrir myndir og svo var þotið áfram. Og við náðum. Við lokahindrunina óðum við í hné og töldum okkur sleppa vel og loks gátum við hent okkur niður og varpað öndinni. Dásamleg tilfinning, enda hafði tímasetning ferðarinnar í ár verið miðuð við tíma fjörunnar á þessum stað. Nú var aðeins eftir að klára þennan dag og lokagöngudagurinn, sá þrítugasti og þriðji á fjögurra ára raðgöngunni, Horn í Horn var á morgun.

Hugurinn leitar því þrjú ár aftur í tímann þegar við hófum gönguna á suðausturhluta landsins. Gönguna horna á milli þar sem við lögðum af stað frá Hvalnesvita við Eystra-Horn í stífum vindi fyrsta daginn sumarið 2016. Það sumar var genginn einn, átta daga leggur í júlí og lá leiðin um Lónsöræfi, Eyjabakka, Krepputungu og að Jökulsá á Fjöllum en ekki að Dreka eins og stefnt var að. Árið eftir var gengið á níu dögum í einum legg sunnan við Öskju, yfir Skjálfandafljót á brú, að Laugafelli og um Austurdal í Skagafirði. Á þriðja ári var gengið í tveimur lotum. Fyrst á sex dögum í júlí frá Austurdal að Borðeyri í Hrútafirði og síðan á einni helgi í ágúst um Laxárdalsheiði að Gilsfjarðarbotni. Á lokaárinu varð svo úr að ganga í einni átta daga lotu frá Gilsfirði í Steingrímsfjörð, yfir Trékyllisheiði, Strandir og inn á Hornstrandir.

Strax fyrsta sumarið fylgdi veðurblíðan okkur sem átti eftir að einkenna alla gönguna en af 33 heildargöngudögum voru aðeins um fimm eða sex þeirra hreinir rigningardagar. Oftast sólríkt en líka mildir skýjaðir dagar sem er kjörið gönguveður þó einstaka sinnum væri kalt. Oftast var sofið í tjöldum en í heildina var gist í 10 skálum á leiðinni allri. Leiðin var trússuð og það gerði Sigurjón Einarsson, Sissi, frá Höfn af miklum sóma.

Þó vegir liggi til allra átta voru þeir ekki alltaf þar sem hentaði okkur. Leiðinni var því púslað saman eftir því hvar krækja þyrfti fyrir helstu hindranir eins og jökla og stórar jökulár. Gengið var eftir þekktum gönguleiðum, vegaslóðum og færar leiðir fundnar þar á milli. Frá byrjun gerðum við okkur grein fyrir að erfitt yrði að koma ekki við á öllum þeim perlum sem voru á leið okkar. Ferðinni var ætlar að standa í fjögur ár og koma þurfti 780 km og 38 göngu og ferðadögum fyrir innan þeirra marka.

Eftir fyrsta göngudaginn var tjaldað á Smiðjunesi í Lóni innan um einstaklega litríka gíga og bergganga. Daginn eftir var gengið áfram meðfram Jökulsá í Lóni og yfir göngubrúna við Eskifell. Næstu daga lá leiðin um hin fögru og litskrúðugu Lónsöræfi og gisting í skálunum þremur á þeirri leið, í Múlaskála, Egilsseli og Geldingafelli. Á þeim parti varð að bera farangur til tveggja daga frá Illakambi ofan við Kollumúla og að Geldingafelli þar sem við hittum Sissa á trússbílnum aftur. Litadýrð í bergi og gróðri einkennir Lónsöræfin og magnaðar kynjamyndir og landslag hvert sem litið var. Hjá Tröllakrókum og á Kollumúlaheiði var gróðurinn orðinn sáralítill en landslagið stórbrotið ennþá. Á langri leið var ekki mikið um hefðbundnar sturtur en mjög fjölbreytt baðaðstaða frá náttúrunnar hendi var vel nýtt. Rétt við Egilssel er heiðarvatn þar sem nokkur úr hópnum tóku sundsprett eða fóru í bað og einnig má nefna að eitt flottasta útsýni frá kamri er hjá Egilsseli.

Frá Geldingafelli lá leiðin inn á Eyjabakkana og að brúnni yfir Jökulsá á Fljótsdal. Margir hópar hafa gengið yfir Eyjabakkajökul og að Snæfellsskála en þar sem hann var orðinn mjög illfær og óútreiknanlegur var sú leið ekki valin. Á Eyjabökkum vorum við aftur komin í mikið gróðurlendi, vin í auðninni. Við vonuðumst eftir að sjá hreindýr og heiðargæsina en ekkert bar á þeim framan af. Gæsin lét lítið sjá sig en skyndilega urðum við vör við stóra hjörð hreindýra. Það var magnað að sjá dýrin og finna lyktina af þeim. Okkur brá þó heldur betur þegar hjörðin tóka skyndilega á rás og stefndi beint á okkur. Hjörðin sem taldi að minnsta kosti hundrað dýr stansaði örstutt en kom svo aftur hlaupandi að okkur. Með adrenalínið flæðandi héldum við okkar leið og fljótlega fóru heindýrin líka og við sáum þau ekki meir. Þoka var skollin á og rigning og við lukum löngum göngudegi á Snæfellsnesi norðaustur af Snæfelli, fegin þegar við fundum bílinn okkar og gátum skriðið í tjöld í úrhellisrigningu.

Leið okkar norðan við Vatnajökul lá ýmist um akvegi, stikaðar leiðir eða um óheft víðerni. Næsti dagur varð sá allengsti á allri leiðinni og fór langt fram úr áætlun. Leiðin lá hjá Nálhúsahnjúkum norðan við Snæfell, yfir stífluna á Hálslóni með sérstöku leyfi og fram hjá Kárahnjúkunum fögru. Þá var komið kvöld og heiður himininn skartaði stóru fullu tungli handan þeirra. Loks komum við í Laugarvalladalinn sem var kærkomin vin og hvíldarstaður með heitum læk sem rennur fram af klettasnös og myndar þannig hlýja sturtu. Eftir þennan langa dag var sofið út og síðan skoðið á fundi og staðan tekin. Dagarnir tveir sem eftir voru af leggnum voru styttir og í stað þess að enda við Dreka lauk ferðinni við Upptyppinga hjá Jökulsá á Fjöllum. Nú lá leiðin vestur í nokkuð beinni stefnu að brúnni yfir Kreppu. Það var nokkuð auðgengið um sendnar hæðir og dali, auðn, kyrrð og jökulsorfið land. Lokadagurinn var á Krepputungu á milli jökulánna miklu, Kreppu og Jökulsár á Fjöllum. Nýtt landslag, mjúkir og sorfnir klettar innan um svartan og ljósan sand, ævintýraland sem auðvelt var að þræða sig um. Frábærum og á köflum erfiðum legg lauk við brúnna yfir Jökulsá á Fjöllum og með leyfi landvarða var tjaldað þar í gömlum farvegi hennar. Daginn eftir keyrði rúta hópinn til Mývatns.

Ári síðar vorum við mætt á sama stað, full orku og eftirvæntingar. Spáin fyrir næstu dagar var sól og sandur og það rættist sannarlega. Haldið var frá brúnni hjá Upptyppingum, eftir Vikusandi framhjá Vaðöldu og tjaldað nálægt Dyngjuvatni rétt við veginn. Þegar leið á fyrsta daginn fór að hvessa og brátt var allur hópurinn búinn að draga upp rykgrímur, skíðagleraugu eða sundgleraugu. Nokkuð hlýtt var og alveg þurrt og því sveipaðist sandurinn og askan um okkur. Þegar komið var á tjaldstað var farið að tjalda í rokinu og þau sem luku því snemma, hrósuðu happi því nú skall á stormur sem gerði allt erfiðar. Hvort sem það var að ljúka við tjöldun, tala saman eða undirbúa mat. Sandurinn smaug alls staðar og lítið um skjól í fortjöldum og því var best að hafast við í innra tjaldinu og reyna að borða. Við þessar aðstæður kom frussan eða fjallasprænan sér vel fyrir konur til að pissa standandi því það var næstum ógerlegt að gera á hefðbundinn hátt. Með kvöldinu lægði loksins og hægt að anda léttar.  Dásemdar kyrrð færðist yfir og töfrandi birta þar sem við vorum þarna ein í eyðimörkinni skammt frá vininni í Svartárbotnum og fossinum Skínanda þangað sem mörg okkar fóru í kvöldgöngu.

Næstu þrír dagar fóru í að ganga yfir sandana norðan Vatnajökuls í sól, hægum vindi og hlýindum. Leiðin lá í hávestur á Dyngjusandi með Snæfell að baki, Herðubreið í norðaustri, Öskju í norðri, Trölladyngju framundan og Bárðarbungu og Kverkfjöll í suðri. Hér þurfti ekki að minna neinn á að njóta líðandi stundar og dvelja í núinu. Landið og náttúran sáu um það. Forréttindin sem við nutum að upplifa allt þetta við þessar aðstæður gagntók okkur. Þar sem akvegurinn lá á leið okkar, gengum við á honum en annars héldum við beinni stefnu á þægilegri göngunni þó að sums staðar væri dálítið holrúm undir sandinum sem gaf þá eftir. Öll gangan yfir þjóðgarðinn og tjaldstaðir voru með vitund og samþykki landvarða eins og vera ber. Lítil umferð var og við nutum því enn frekar kyrrðarinnar og víðáttunnar.

Nýja Holuhraunið freistaði helmings hópsins sem tók sveig til að skoða það í nálægð og sá ekki eftir því. Hinn helmingurinn hélt stefnunni og sameinuðust svo hóparnir rétt áður en komið var í náttstað norðan Hrímöldu. Nokkur úr hópnum voru búin að ganga Langleiðina með Útivist frá Reykjanestá að Fonti. Þarna sköruðust leiðirnar og var það skemmtilegt augnarblik þegar þau náðu þeim áfanga. Um kvöldið og nóttina bar eitthvað á ógleði og höfuðverk hjá sumum í hópnum og líklegasta skýringin var áhrif af þurra fíngerða sandinum og öskunni sem við vorum að róta upp við gönguna.

Eftirvænting var vegna næsta dags en þá lá leiðin yfir Trölladyngjuna sjálfa. Svo heppilega vildi til að hún var á miðri leið okkar og enginn útúrdúr. Valið stóð um að krækja fyrir hana til að fara styttri dagleiðir og hitta trússbílinn á einhverjum veginum eða taka langan dag og fara yfir. Fyrir göngunörda var það ekki flókið val. Gengið var frá veginum við Hrímöldu og stefnan tekin á gígbrún Trölladyngju. Neðri hluti austurhliðarinnar var þakin hrauni með mjög stórgerðum og miklum kynjamyndum sem auðvelt var að finna leið í gegn um. Stórkostlegt svæði sem er þess virði að fara og skoða sérstaklega. Þegar ofar dró varð yfirborðið eins og vestan megin þar sem oftast er gengið upp, eins og algengt er á dyngjum, sléttara en þó ekki slétt en auðvelt að finna sér leið áfram. Dagurinn var þurr og gert var ráð fyrir vatslitlum degi. Raunin varð þó að víða voru lækir og snjóskaflar enn að bráðna og því nóg vatn. Útsýnið frá gígbarminum gleymist seint á þessum heiðskýra degi. Í suðri var Vonarskarð og Bárðarbungan í kyrrð sinni þann tíma sem við vorum á svæðinu, þá Urðarhálsinn og við horfðum niður á gíginn undarlega. Dyngjujökull, Kverkfjöll og Brúarjökull í Vatnajökli og Snæfell í austri. Dyngjufjöll við Öskju í norðri og Herðubreið handan þeirra og í vestri var Hofsjökull og grillti í Mælifellshnjúk norðan hans. Þá Arnarfell hið mikla sunnan í Hofsjökli og Tungnafellsjökull sem stefnt yrði að á morgun. Haldið var niður vestan megin og svo stystu leið að veginum til móts við trússið. Farsæll göngudagur að kvöldu kominn.

Næstu daga var lögð lykkja á leiðina til að komast á brú yfir Skjálfandafljót og stefnan því næst tekin á Fjórðungsvatn og Laugafell. Kærkomin vin eftir auðnina, skálagisting og eina flottasta laug hálendisins, veislumatur og sofið út.

Nú voru þrír dagar eftir af göngu þessa sumars og þeir lágu niður af hálendinu og inn í gróðurvinina í Austurdal í Skagafirði. Skálar stóðu til boða báðar næturnar sem eftir voru, Gráni, þar sem sum tóku tjaldið fram yfr og fíni skálinn Hildarsel. Á þessum kafla var farangurinn okkar trússaður á fjórhjóli því ekki var bílfært frá Grána. Lokadagurinn var í styttri kantinum miðað við það sem hópurinn átti að venjast eða 12 km. Gengið var hjá Ábæjarkirkju og endað á að fara yfir Austari-Jökulsá í kláfi við Skatastaði þar sem rúta beið og flutti okkur í bæinn.

Þriðja árið  hófst og hittist hópurinn á Borðeyri þar sem bílar voru geymdir og farið með rútu í Skagafjörðinn þar sem frá var horfið árið áður. Framundan var fyrri lota ársins með sex göngudögum og sá fyrsti stuttur en komið var með rútu frá Reykjavík um morguninn. Gengið var meðfram einstöku gljúfri Austari-Jökulsár þar sem það dýpkar og þrengist og stórkostlegt að skoða það á göngunni.  Til móts við Merkigil lá leiðin upp hálsinn og yfir í Vesturdal og á brú yfir Vestari-Jökulsá.

Næstu daga var gengið í hávestur yfir heiðar sunnan Skagafjarðar og Húnavatnssýslna. Gengið yfir Goðdalafjall og stefnan tekin á Aðalsmannsvatn þar sem gist var í Bugaskála. Næsta dag var gengið eftir vegaslóða að Blöndulóni þar sem farið var yfir á stíflunni og enn fylgdi sólin okkur. Vestan Blöndu tóku við mýrar og heiðavötn, stórar þúfur og vegaslóðar á víxl. Hér fæst meistaragráða í að ösla mýrar og fólk finnur á eigin skinni að betri er krókur en kelda. Hægt er að komast áleiðis nokkuð þurrum fótum með því að krækja fyrir stórar mýrar en það er líka freistandi að skella sér í vaðskó og fara beinni leið. Að kvöldi beið stór og flottur Öldumóðuskáli þreyttra ferðalanga.

Daginn eftir lá leiðin að Haugaskvíslarskála á Víðidalstunguheiði og urðum við að bera svefnpoka og mat fyrir tvo daga þar sem ekki var bílfært vegna vegbleytu. Margar ár voru nú á leiðinni og var yfirleitt ekki hægt að stikla þær. Þó engar væru erfiðar þá var tímafrekt að fara úr og í skó allt að tíu sinnum einn daginn. Það var tekið að kólna í veðri og var mjög kalt um nóttina í síðasta skála þessa sumars. Stefnan var nú á Hrútafjarðarbotn og gengið eftir jeppaslóðum um Aðalbólsháls, framhjá Mönguhálsskála og í Austurárdal þar sem við fórum yfir Austur á hjá Skárastöðum. Nú var gengið á vegum og hálsum á víxl og stefnt á Hrútafjarðarháls neðarlega við fjörðinn.

Mikill sjarmi er á heiðunum með þykka gróðurþekjuna, vatnið allt um kring, kyrrðina og víðáttuna. Þarna stendur tíminn kyrr og unun að vera í góðu veðri. Mikið og gott útsýni gafst á þessum legg. Hofsjökull var í suðri í byrjun göngunnar og hann leið framhjá. Svo kom að Langjökli, Krák, Eiríksjökli og fleiri kennileitum sem undir lok göngunnar voru að baki.

Yfir Hrútafjarðarhálsinn fórum við eftir Húksleið sem var blaut á köflum. Verulega kalt var orðið og köld norðanátt nísti inn að beini. Því var kærkomið að koma loksins niður í Hrútafjörðinn eftir fallegu gili rétt norðan við Stað og restina af langri dagleið að Borðeyri var gengin á malbikinu.

Síðar um sumarið var tekin ein gönguhelgi til að komast í botn Gilsfjarðar. Farið með rútu að Borðeyri á föstudagskvöldi og gist í Tangahúsi. Daginn eftir var gengið eftir þjóðveginum fyrst um sinn og inn á Laxárdalsheiði. Á köflum var hægt að stytta sér leiðina eftir göngu- og reiðslóðum þar til vegurinn var alveg yfirgefinn. Farið var sunnan við Láxárdalsvatn, vestan við Hólmavatn og að Ljárskógum hjá Hvanneyrum. Þar gistu sum í litlum skála en önnur í tjaldi. Daginn eftir var gengið inn með Gaflfelli og Hólkonuhnúk sem sum gengu upp á og eftir Hvolsfjalli og niður hjá Gullfossi í Gilsfjarðarbotni þar sem rúta beið og flutti hópinn til borgarinnar.

Lokagönguleggurinn rann upp og enn á ný vorum við mætt þar sem frá var horfið árið áður. Stefnan var að fara að botni Steingrímsfjarðar á tveimur dögum og við þræddum okkur inn Brekkudal á veginum yfir Steinadalsheiði og fórum svo fljótlega að fikra okkur yfir hálsinn yfir Vatnadal og gengum svo eftir endilangri Heiðarbæjarheiði því frábært skyggni og útsýni heillaði þó grýtt væri hún. Gangan endaði í Miðdal og þaðan vorum við selflutt til Hólmavíkur og til baka daginn eftir. Leiðin fyrir Steingrímsfjörð að rótum Trékyllisheiðar var gengin á þjóðveginum til og var tjaldað þessar fyrstu tvær nætur á Hólmavík og hópurinn selfluttur á milli að kvöldi og morgni.

Loks hófst lokakaflinn sem beðið var eftir, gangan á Ströndum og að Hornströndum. Farið var í ágætis veðri yfir Trékyllisheiðina eftir gömlu þjóðleiðinni og að Búrfellsvatni. Þar tókst öllum að finna sér smáflöt til að koma fyrir tjaldi og hefja matseld. Komin var þoka og lítið skyggni en daginn eftir nutum við útsýnis frá heiðarbrúninni yfir Reykjarfjörð syðri, Djúpuvíkina, Reykjarfjarðarfjall, Finnbogastaðarfjall, Örkina að hluta, Kamb og Kaldbakshorn.

Áfram var arkað eftir heiðinni og stefnt að Húsa sem við fylgdum í Ófeigsfjörð og þar með vorum við komin inn í töfrandi heim Stranda. Tjaldað var framan við Hvalárfoss á flöt sem er einstaklega heppileg fyrir tjaldbúðir og þarna endar líka bílvegurinn. Hér kvöddum við því Sissa trússara sem hafði trússað nær alla leggina en hann hafði alltaf þann ágæta sið bjóða eðalkoníaksstaup að loknum hverjum legg.

Nú tók við ganga með allt á bakinu síðustu fjóra dagana. Við gátum sent hluta matarins með báti á undan okkur en til öryggis bárum við tjöld og svefnpoka ef ekki yrði nógu gott í sjóinn til að bátur gæti lagt að bryggju. Við gengum í Eyvindarfjörð þar sem kraftmikil og falleg áin er brúuð á tveimur farvegum hennar. Nú var gengið meðfram sjónum áleiðis í Drangavík og nóg að skoða á leiðinni. Rekaviðurinn, skarfakálið og annar gróður, Gathamar, sjófuglar og selir. Þegar Drangarnir og Drangaskörðin blöstu við tók fólk andann á lofti því það er ólýsanlegt að vera á staðnum. Tjöldum var slegið upp við Drangavíkurá undir heiðum himni og með Drangaskörðin framundan. Kvöldið var hlýtt og fallegt og mörg sem gengu um Drangavíkursandinn og nutu þessa einstaka staðar.

Næsta dag þegar gengið var undir dröngunum og fyrir nesið var lágskýjað og við sáum ekki þessi miklu náttúrusmíð. Næst var komið að Dröngum þar sem matarböggull beið okkar og var spennandi að rifja upp hvaða kræsingum hafði verið pakkað niður. Sumir höfðu skammtað ríflega og voru með uppboð til að þurfa ekki að bera of mikið. Haldið var áfram og tjaldað við Meyjará þar sem var annað ljúft kvöld og nú við varðeld.

Nú lá leiðin inn Bjarnarfjörð og hann vaðinn á fjöru. Það er gott og auðvelt vað en nokkuð langt og getur því orðið kalt. Gangan lá yfir Fossadalsheiði og niður í Fossadal eftir skýrri varðaðri leið þó ekki væri hún augljós í byrjun. Þetta er falleg leið með Miðmundarhornið og Hornstrandirnar framundan og Hrolleifsborg og Hljóðabungu áberandi í Drangajöklinum. Það var komin eftirvæntin í hópinn þar sem heit sundlaugin í Reykjarfirði og síðasta gistingin í húsi beið okkar. Reykjarfjarðarósinn var þó eftir, nokkuð vatnsmikil og straumhörð jökulá þennan dag. Eftir þá fyrirstöðu var leiðin greið og hópurinn kom fagnandi í hús.

Víkur nú sögunni aftur þar sem við vorum nýkomin fram hjá ófærunni í Furufirði. Áfram var haldið inn Bolungarvík og í Barðsvík. Lokadaginn var bjartur og fagur og nú sáust tindarnir í kringum Hornvík. Komið var við á Hornbjargsvita við Látravík þar sem vöfflur og kakó freistuðu og loks vorum við komin á lokakaflann um Almenningaskarð og að Horni. Það fylgir því sigurtilfinning að ljúka svona göngu og það var gleði og fögnuður sem ríkti á tjaldstæðinu hjá Horni þetta kvöld.  

Pistill: Hrönn Baldursdóttir leiðsögumaður og fararstjóri í ferðinni.
Greinin birtist í tímaritnu Úti árið 2020

Hrönn Baldursdóttir