Starfsorkan

Starfsorkan okkar er gulls í gildi. Það finnum við best ef hún minnkar og hvað þá ef við upplifum starfsþrot eða kulnun. Á meðan starfsorkan er góð þá er tilhneigingin hjá okkur mörgum að nýta hana til fulls og fara jafnvel alveg að mörkum hennar. Þreytan kemur síðan reglulega yfir okkur og gefur merki um að slaka aðeins á og hvílast.

Það er einstaklingsbundið hversu auðvelt við eigum með að hlusta á líkama og huga. Sum eru vel tengd við sína líðan og taka strax mark á skilaboðum um þreytu og annað. Önnur okkar nema þessi skilaboð seint og hafa gengið meira á orkuforðann áður en slakað er á.

Gamalgrónar klisjur um að „vinnan göfgi manninn“ og álíka skilaboð sem upphefja mikla vinnu, trufla okkur við að hlusta á merki frá líkama og huga. Mörg okkar eru komin áleiðis í að vinna okkur frá þessum úreltu gildum en það getur þó verið grunnt á gamla farið.

Það er því mikilvægt að staldra reglulega við og skoða okkar eigin venjur og rútínur. Skoða hvort við föllum oft í gamalt far og þá af hverju. Er það af gömlum vana eða af meðvirkni ef við erum í umhverfi sem hampa þessu gamla munstri. Ef langvarandi álag er mikið verðum við að finna leið til að minnka það. Það er líka gott að íhuga hver okkar eigin viðhorf eru til vinnu og hvíldar. Hvað finnst okkur um tímann sem fer í hvíld og í „ekkert“? Finnst okkur við vera að verja tímanum eða eyða honum í hvíld og í okkur sjálf? Viðhorf hafa ótrúlega mikil áhrif á ákvarðanir okkar og því gagnlegt að íhuga þau.

Taktu þér tíma á hverju ári og helst oftar en einu sinni á ári, í að hugleiða þetta. Þeim tíma er vel varið. Gerðu þetta að venju ÁÐUR en starfsorkan dalar. Það er erfiðara að ná henni til baka heldur en að vilhalda starfsorkunni jafnri. Sumar klisjur segja að starfsorkan minnki með aldrinum. Er það lögmál eða er það vegna langvarandi vinnuálags? Ég tel að við getum haldið meiri starfsorku lengur með því að fara betur með okkur almennt, helst strax í byrjun starfsaldurs. Ég vil taka fram að með starfsorku er ég ekki bara að hugsa um orku fyrir launað starf heldur alla iðju sem við tökum okkur fyrir hendur; störf, tómstundir, áhugamál, félagsleg samskipti, sjálfboðastörf, heimilisstörf og líkamsrækt.

Þú getur tekið þér tíma á eigin vegum og yfirfarið hvernig þú verð þínum tíma. Þú gætir líka komið á vinnunámskeið hjá mér sem ég kalla „Súrefnisgríman þín“ og yfirfarið þinn tíma. Til að hafa orku og súrefni til að sinna okkur sjálfum, fólkinu okkar og verkefnum okkar þá þarf að „festa súrefnisgrímuna“ á okkur sjálf fyrst. Vertu viss um að súrefnisgríman þín sé vel skorðuð og þá ætti starfsþrot vegna langvarandi álags ekki að koma þér á óvart.

Sjá námskeiðið Starfsorkan og tíminn þinn en það hét áður Súrefnisgríman þín.

Hrönn Baldursdóttir