Bullet journal aðferðin

Bullet journal dagbókarformið kom fram á sjónarsviðið fyrir rúmum áratug. Síðan þá hafa vinsældir aðferðarinnar aukist jafnt og þétt og hún er orðin mjög útbreidd. Það eru nokkur ár síðan ég heyrði fyrst um Bullet journal aðferðina og ég kynnti mér hana lítillega á þeim tíma. Ég sá að þetta var eitthvað sem nauðsynlegt væri að þekkja sem náms- og starfsráðgjafi þar sem einn hluti starfsins felst í leiðsögn um námstækni, tímaskipulag og markmiðavinnu. 

 

Síðustu ár hef ég alltaf gefið mér tíma í að kynna mér aðferðina betur og prófað mig áfram með hana að hluta til að fá meiri innsýn. Í stuttu máli þá er ný Bullet journal dagbók, bara með auðum blaðsíðum sem allar eru með daufum punktum sem mynda nokkurs konar rúður yfir alla blaðsíðuna. Auð blöð fyrir eigandann að skrá niður viðburði, skipuleggja verkefni og hanna sína framtíðarsýn eftir ákveðnu kerfi. 

 

Því meira sem ég kynnti mér aðferðina varð ég hrifnari og sá að þetta myndi henta mörgum og þar á meðal mér. Nýlega rakst ég svo á nýja bók frá höfundi aðferðarinnar, honum Ryder Carroll. Bókin kom út 2018 og heitir The Bullet Journal Method. Undirtitilinn segir líka sitt um hvað notendur þessarar aðferðar öðlast en hann er: Track the Past, Order the Present, Design the Future eða lauslega þýdd; að fá yfirsýn yfir fortíðina, skipuleggja nútíðina og hanna framtíðina. Mér finnst þetta einmitt vera það sem ég fæ með þessari tegund dagbókar og sem hefðbundnar dagbækur hafa ekki nýst mér nægilega vel í. 

 

Um daginn tók ég svo þá ákvörðun að hella mér alveg út í að nota þessa tegund af dagbók fyrir mitt tímaskipulag. Ég keypti mér litla stílabók af sömu stærð og Bullet journal dagbækur og sem er með punktum eins og þær. Þetta átti að vera æfingarbókin mín og svo byrjaði ég að lesa Method-bókina. Við lesturinn fékk ég mjög góða yfirsýn og skilning á hugmyndafræðinni og þá gat ég enn frekar tileinkað mér af öryggi og innsæi að skapa mína bók eins og hún gagnast mér. 

 

Þegar fólk skoðar á netinu “bullet journal” blasa við alls konar blaðsíður með teikningum og skreytingum sem eru virkilega fallegar. Mörgum fallast þó hendur og halda að teiknignar og litir séu aðalmálið sem er ekki rétt. Hins vegar er það punkturinn yfir i-ið en alls ekki nauðsynlegt. Það er hins vegar miklu skemmtilegra að opna dagbók sem er falleg og ef við erum að íhuga drauma og mikilvæg verkefni og markmið þá gefur það þeim extra virðingu og áherslu að strika undir með fallegum lit eða teikna til dæmis sól, blóm eða eitthvað á blaðsíðuna. Áherslulínur geta samt alveg verið nóg og mikilvægt að muna að dagbókin er eigið sköpunarverk eins og hún hentar hverjum og einum. 

 

Aðalmálið og kjarninn í aðferðinni eru örfá grunnform og síðan gengur aðferðin út á að fá sjálfa sig til að opna bókina tvisvar á dag. Svo skapar hver og einn sína flokka og innihald. Núna hef ég verði í þessum æfingarfasa í hálft ár og mér hefur tekist þetta að opna bókina daglega á virkum dögum og lágmark einu sinni um helgar. Þetta er stórsigur í mínu tilfelli því ég hef lengi glímt við frestun þó ég sé framtaksöm líka. Ég hef reynt að vera skipulögð í gegnum árin til að ná tökum á frestuninni. Út á við virka ég jafnvel ofur skipulögð þó ég viti betur. Þessi aðferð veitir mér yfirsýn og gleði sem verður til þess að ég gef mér tíma daglega með bókinni. Það verður svo aftur til þess að ég framkvæmi meira af því sem ég hef ætlað mér.

 

Annað sem er mikilvægt er áherslan á pappírsformið. Vissulega eru rafræn öpp og dagbækur gagnleg og flott fyrirbæri og ég hef notað slíkt mikið. Hins vegar erum við að setjast í næði með okkar eigin hugsunum þegar við erum að íhuga markmið, setja stefnuna eða forgangsraða verkefnum. Við þau tækifæri getur verið mjög truflandi að hafa allan heiminn á kantinum ef við reynum að gera þetta í síma eða tölvu. Nægur tími fer í það samt að vera í raf- og netheimum og ekki mikið að splæsa nokkrum mínútum á dag í bók sem heldur utan um mína eigin tilveru. Bókin verður líka hvorki rafmagnslaus né netlaus.

 

Þetta er mín leið við tímaskipulag og allt sem því fylgir. Um næstu áramót er ég því ekki að fara að kaupa hefðbundna dagbók eins og ég hef gert árlega hingað til á þessari öld heldur mun ég setjast niður með punkta-dagbókina mína, fletta yfir liðið ár og ígrunda og hanna það næsta. Teikna sjálfsagt rakettur og stjörnuljós og veginn framundan. 

Hrönn Baldursdóttir