Tímastjórnunartæki
Gott tímastjórnunartæki til að koma sér að verki
Við erum mörg í stöðugri glímu við að koma okkur að verki. Einnig að velta fyrir okkur hvenær við höfum afkastað nógu miklu þann daginn og hvenær við látum staðar numið í vinnunni. Það er þetta jafnvægi í að afkasta nægilega og líka að eiga frítíma sem er algeng glíma. Því meira sem við ráðum okkar vinnutíma því frekar er það á okkar eigin ábyrgð að skapa þetta jafnvægi. Og þá reynir einmitt á okkar eigin sjálfsaga.
Mig langar að segja ykkur frá einföldu tímastjórnunartæki sem ég nota mikið en það heitir Pomodoro Technique. Í stuttu máli þá gengur aðferðin út á að vinna í 25 mínútur og taka hlé í 5 mínútur. Eftir nokkrar vinnulotur tekurðu lengri pásur. Nauðsynlegt er að byrja á að setja saman lista yfir verkefnin þín og ákveða forgangsröðun þeirra og því næst er einfaldlega að hefjast handa. Þú getur notað eldhús-eggjaklukku, niðurteljara í snjallsímanum eða smáforrit. Hér á þessari síðu https://tomato-timer.com/ hefur tímastillingin verið sett upp og því fljótlegt að setja tímann af stað. Það er hægt að nota þessa aðferð hvort sem þú situr við borð eða tölvu og ert að vinna eða ert á þönum við að vinna líkamleg verk eða í höndunum.
Það helsta sem þarf að passa er að freistast ekki til að halda áfram að vinna eftir að tímastillirinn hringir heldur taka sér pásuna. Þetta er jú bara 5 eða 10 mínútna pása og enga stund að líða. Málið er að við afköstum meiru og vinnum betur ef við tökum oftar stuttar pásur heldur en ef við vinnum lengur í einu og tökum samfellda pásu þó að pásur yfir daginn séu jafnmargar mínútur. Eftir stutta vinnulotu og stutt hlé þá komum við ferskari og jákvæðari aftur að vinnuborðinu eða að verkinu heldur en eftir langa vinnulotu.
Kosturinn sem ég finn hjá mér við að nota svona aðferð er að ég vinn markvissar og sóa minni tíma í slór og hangs yfir verkefnunum. Þegar upp er staðið hef ég lokið meiru á þeim tíma sem ég ætlaði mér og á þá meiri frítíma til að njóta fyrir mig.