Nú árið er liðið í aldanna skaut og næsta ár að hefjast. Þú hefur eflaust gert ýmislegt gott og uppbyggilegt á árinu, kannski vildirðu hafa gert meira kannski ekki. Sumir eru orðnir hundleiðir á tali um áramótaheit og víst er að það er engin skylda að strengja þau. Ef þig langar hins vegar að láta drauma rætast eða breyta venjum þá er þetta góður tími til að taka ákvörðun um slíkt. Láttu ekki neikvætt tal um áramótaheit trufla þig og farðu eftir ákveðnum gagnlegum reglum um markmiðasetningu.

Ef þú hugsar eitt ár fram í tímann, hvað viltu geta rifjað upp frá árinu 2015 um næstu áramót? Hvað langar þig virkilega til að gera? Hvaða nýju venjur viltu tileinka þér? Til að auka líkur á að markmiðin verði að veruleika ættu markmiðin að vera með ákveðnu sniði. Þau helstu eru þessi:

·         Láttu markmiðin fjalla um það sem þú ætlar að gera en ekki það sem þú ætlar ekki að gera. Þess vegna ættu markmiðin ekki að innihalda orð eins og „hætta að“ eða „ekki“.

·         Markmið verður að vera skýrt þannig að þú vitir að hverju þú ert að stefna og getir þá betur séð það fyrir þér. Því skýrara, því auðveldara er að sjá markmiðið í huganum en það eykur líkur á að það verði að veruleika. Mikilvægt er að skrifa markmiðið niður og enn betra ef þú átt mynd sem minnir þig á það. Best er að hengja myndina og textann upp á vegg þar sem þú sérð það oft.  

·         Markmiðið verður að vera mælanlegt því annars veistu ekki hvenær þú hefur náð því. Að verða „duglegri við að“ eða „fara oftar“ í eitthvað eru mjög huglæg og loðin viðmið. Nauðsynlegt er að setja tölur inn í markmiðin því þá veistu að hverju þú ert að stefna og hvort markmiði er náð. Hve oft í viku/mánuði þú ætlar að gera eitthvað, hve mörg kíló, hvað margar krónur o.s.frv.

·         Markmiðið verður að vera alvöru markmið fyrir þér. Þig þarf virkilega að langa til að ná því og hafa merkingu fyrir þig. Þess vegna skaltu hugsa um af hverju þú vilt ná því. Ekki setja bara markmið af því aðrir eru að því, hugsaðu um hvað er mikilvægt fyrir þig núna.

·         Mundu að markmið verður að vera raunhæft. Miðaðu við þann tíma sem þú hefur til afnota og út frá þinni getu um hvað raunhæft er að gera. Hinn gullni meðalvegur er vandrataður en við megum hvorki vanmeta né ofmeta okkur sjálf. Ef þú hefur náð fáum markmiðum undanfarin ár er samt allt í lagi að vera strangari við sig, hugsaðu um sigurtilfinninguna og gleðina um næstu áramót!

·         Síðast en ekki síst verðurðu að tímasetja markmiðin því annars þvælast þau með manni ár eftir ár og lítið breytist. Settu inn dagsetninguna þegar þú ætlar að hafa náð markmiðinu. Umfangsmeiri markmið er mikilvægt að búta niður og tímasetja hvern hluta.

Tökum dæmi. Ef þú ætlar t.d. að hætta að borða sykur þá gæti markmiðið fjallað um það sem þú ætlar að borða í staðin og hvenær dagsins. Eða þú ætlir að borða að hámarki x grömm af sykri á viku á meðan þú trappar þig niður. Ef þú ætlar að hreyfa þig meira gæti markmiðið verið að hreyfa sig tvisvar í viku í janúar og febrúar og þrisvar í viku í mars og apríl – og tilgreina auðvitað nákvæmlega hvaða hreyfing það á að vera.

Sumir segja öðrum frá markmiðinu til að auka þrýstinginn á sjálfa sig. Það getur vissulega virkað en er mjög persónubundið hve mikil þörf er fyrir það. Hins vegar er mjög mikilvægt að setja markmiðin inn í dagbókina þannig að þau komist inn í daglega og vikulega rútínu. Notaður öll hjálpargögn sem þú getur til að minna þig á eins og dagbók, síma, minnislista, myndir og tákn víða um heimilið eða í seðlaveskið. 

Gangi þér vel og gleðilegt ár.